Myndsamtöl eru mikilvægur þáttur í velferðartækni. Ljósmynd frá memaxi.com.
Akureyrarbær og Heilbrigðisstofnun Norðurlands hafa efnt til samstarfs um aukna samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar með hjálp Memaxi samskipta- og skipulagslausnarinnar.
Memaxi hjápar þjónustuveitendum í heilbrigðis- og velferðarþjónustu að skipuleggja persónumiðaða þjónustu og auðveldar samskipti við einstaklinga og aðstandendur. Þjónustuþegar, hvort sem er í sjálfstæðri búsetu eða búsetu með stuðningi, geta fylgst með eigin dagskrá og upplýsingum á einföldum spjaldtölvuskjá og átt í samskiptum við fagfólk og aðstandendur, meðal annars með myndsamtölum.
Þessar aðferðir eru dæmi um velferðartækni sem er nú innleidd markvisst hjá Akureyrarbæ. Í stefnu bæjarins sem var samþykkt í fyrra er lögð rík áhersla á nýsköpun og tæknilegar lausnir við þróun velferðarþjónustu. Markmiðið er að auka lífsgæði notenda, bæta vinnuumhverfi og nýta betur auðlindir til að mæta mannfjöldaþróuninni. Öldrunarheimili Akureyrar hafa verið í fararbroddi í þessari þróun og notað Memaxi, ásamt fleiri tæknilegum lausnum, um nokkurt skeið sem á nú að innleiða af sama krafti í heimaþjónustunni.
Samstarfsyfirlýsing Akureyrarbæjar og HSN snýst um 12 vikna tilraunaverkefni um samþættingu á notkun búnaðar frá Memaxi, deilingu á almennum upplýsingum um umönnun þjónustuþega með það að markmiði að bæta skilvirkni í störfum þeirra sem veita þjónustuna, auka öryggi og bæta þjónustu. Engum viðkvæmum persónugreinanlegum upplýsingum, svo sem heilsufarsupplýsingum, verður safnað og eru allir starfsmenn bundnir trúnaði og fyllsta öryggis gætt varðandi skráningu almennra upplýsinga í samræmi við persónuverndarlög.