Evrópskt verkefni sem miðar að vistvænni ferðamáta

Hjólreiðar eru vistvænn ferðamáti. Mynd: Auðunn Níelsson.
Hjólreiðar eru vistvænn ferðamáti. Mynd: Auðunn Níelsson.

Akureyrarbær og Vistorka taka þátt í evrópsku verkefni á vegum EIT Urban Mobility (A European initiative for the future of urban mobility) sem felst í eins konar samkeppni um lausnir sem miða að minnkun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum (Rapid Applications for Transport, eða RAPTOR).

Verkefnið gengur út á að borgir og bæir í Evrópu setja fram áskorun sem staðið er frammi fyrir þegar kemur að vistvænum samgöngum. Akureyri lagði fram áskorun sem tengist hagræðingu og samþættingu almenningssamganga og örflæðis, en með örflæði er átt við létt farartæki undir 500 kg sem eru ætluð fyrir stuttar ferðir í þéttbýli og fara ekki hraðar en 25 km/klst. Nánar um áskorun Akureyrar hér.

Einkabílaeign er há á Akureyri en í árslok 2022 voru skráðir um 85 bílar á hverja 100 íbúa. Þetta er mun hærra hlutfall en annars staðar í Evrópu þar sem meðaltalið innan ESB er 50 bílar á hverja 100 íbúa. Samkvæmt ferðavenjukönnun frá árinu 2020 fara bæjarbúar flestra sinna ferða á einkabíl. Því þarf að finna og innleiða nýjar lausnir til að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Ein lausnin getur verið aukin samþætting á almenningssamgöngum og örflæði til að auðvelda bæjarbúum að leggja einkabílnum og velja sér vistvænni ferðamáta.

Tólf borgir í Evrópu taka þátt í keppninni og setja fram sína samgönguáskorun. Sprotafyrirtæki fá tækifæri til að taka þátt með sínar lausnir með því að sækja um þá borgaráskorun sem hentar viðkomandi lausn. Í framhaldi verður valið hvaða lausn hentar hverri áskorun, en aðeins er valin ein lausn fyrir hverja borg.

Hér er hægt að horfa á myndband um kynningu verkefnisins í ár.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan