Nýtt leiðanet Strætisvagna Akureyrar

Akureyrarbær kynnir nýtt leiðanet Strætisvagna Akureyrar að loknu samráði og endurskoðun. Stefnt er að því að hefja akstur samkvæmt nýju leiðaneti í sumar.

Helstu leiðarljós og markmið eru óbreytt frá upphaflegum tillögum, að bæta þjónustuna, fjölga farþegum með aukinni tíðni, beinni leiðum, styttri ferðatíma og stuðla að betri tengingu milli skóla og frístundastarfs. Lagt er upp með að leiðanetið samanstandi af tveimur megin leiðum og að strætó komi á 20 mínútna fresti á annatíma sem er mikil framför frá núverandi leiðaneti sem byggir á 60 mínútna tíðni.

Hér á vefsvæði verkefnisins er hægt að finna allar upplýsingar um nýja leiðanetið.

Hátt í 200 ábendingar 

Við endurskoðun á leiðanetinu hefur verið lögð rík áhersla á samráð við íbúa á öllum stigum verkefnisins. Við mótun fyrstu tillagna var leitað eftir sjónarmiðum barna og ungmenna í sveitarfélaginu og lögð fyrir almenn könnun meðal íbúa.

Fyrstu tillögur voru svo kynntar í október síðastliðnum og hófst þá víðtækt kynningar- og samráðsferli sem leiddi af sér hátt í 200 ábendingar frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Allar ábendingar voru teknar til skoðunar og reynt að koma til móts við sem flest sjónarmið eftir því sem rammi verkefnisins leyfði.

Frístundaakstur og ýmsar úrbætur á leiðanetinu

Ein af stóru breytingunum sem samráðið leiddi af sér er innleiðing á sérstökum frístundaakstri fyrir nemendur í 1.-4. bekk samhliða nýja leiðanetinu, enda sneru margar ábendingar að þeim hópi. Jafnvel þótt nýja leiðanetið hafi í för með sér mun betri tengingar en áður milli skóla og frístundastarfs er talið að koma þurfi betur til móts við þarfir yngstu grunnskólabarna sem sækja íþróttir og aðrar tómstundir beint úr skóla. 

Auk þess hafa verið gerðar nokkrar mikilvægar breytingar á leiðanetinu sjálfu í kjölfar samráðsins. Má þar nefna breytingar á leið 2, annars vegar til að þjónusta betur ákveðin svæði Síðuhverfis og hins vegar til að bæta tengingu við Hagahverfi. Þá er leið 1 við Skautahöllina framlengd á annatíma og á kvöldin sem hefur í för með sér betri þjónustu við innbæinn, Oddeyrina og Holtahverfi líkt og kallað var eftir.

 

Aðrar úrbætur og mótvægisaðgerðir fela til dæmis í sér aukna áherslu á snjómokstur á stígum sem tengjast stoppistöðvum. Einnig verður lagt mat á umferðaröryggi, til dæmis við Hlíðarbraut, lýsing bætt á nokkrum stöðum og lögð áhersla á að fjölga smám saman góðum biðskýlum við stoppistöðvar.

Næstu skref

Næsti áfangi verkefnisins snýr að undirbúningi innleiðingar. Uppfæra þarf tímatöflur, endurskoða staðsetningar stoppistöðva og fleira. Stefnt er að því að taka nýja leiðanetið í notkun í sumar.

Það hefur verið frábært að finna fyrir miklum áhuga íbúa á verkefninu og er öllum þátttakendum í samráðinu þakkað kærlega fyrir þeirra mikilvæga framlag.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan