Forsíða heildarskýrslu Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar
Rannsóknin
Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) er rannsókn sem Háskóli Íslands framkvæmir fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli 12 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Markmiðið er að safna gögnum um upplifun barna og ungmenna af eigin velferð og nýta niðurstöðurnar í bæði smærri og stærri aðgerðir sem snúa að snemmbæru inngripi og stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra ýmist innan hvers skóla fyrir sig eða á sveitarfélagsgrundvelli. Rannsóknin snýr að eftirfarandi efnisflokkum; Menntun, heilsu og líðan, lífsgæðum og félagslegri stöðu, öryggi og vernd, þátttöku og félagslegum tengslum.
Þátttakendur
Rannsóknin var lögð fyrir fyrr á þessu ári fyrir nemendur í 4. – 10. bekk og voru þátttakendur á Akureyri 1.678 talsins en 23.742 á landinu öllu. Þátttökuskólar Akureyrarbæjar voru Brekkuskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Hríseyjarskóli, Hlíðarskóli, Lundarskóli, Naustaskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður hafa verið kynntar á fundi fræðslu- og lýðheilsuráðs, fyrir ungmennaráði Akureyrar og þá stóð forvarna-og frístundadeild fyrir opnum kynningarfundi í Brekkuskóla þann 28. nóvember sl. Tveir af framkvæmdaraðilum rannsóknarinnar, Ragný Þóra Guðjohnsen og Hans Haraldsson, kynntu niðurstöður og sátu fyrir svörum.
Ekki verða hér raktar niðurstöður einstakra skóla heldur þær skoðaðar í heild fyrir sveitarfélagið. Sveitarfélagið stendur vel á mörgum sviðum og er á pari við önnur landsvæði í flestum þáttum. Það eru þó ákveðnir þættir sem eru til skoðunar og þörf er á að vinna í en þeir snúa helst að samskiptum kynja og andlegri heilsu.
Börnum og ungmennum í sveitarfélaginu líður að stærstu leyti vel heima hjá sér, í skólanum, í sínu nærumhverfi og upplifa sig tilheyra. Stærstur hluti barna stundar reglulega hreyfingu, eða a.m.k. fjóra daga vikunnar, og er þátttaka í skipulögðu íþrótta- eða æskulýðsstarfi er góð en aðeins 6-9% ungmenna segjast ekki taka þátt í neinu slíku.
Flest meta heilsu sína góða eða mjög góða þó stúlkur skori þar lægra en drengir. Kynbundin slagsíða virðist vera á flestum spurningum varðandi heilsu. Stúlkur skora hærra þegar kemur að kvíða, depurð, sjálfskaða og sjálfsvígshugsunum og lægra í spurningum er snúa að seiglu. Sama ber við í spurningum er varða kynferðislegt ofbeldi og áreiti. Þá er það áhyggjuefni að um 10% ungmenna hafa upplifað heimilisofbeldi, ýmist á eigin skinni eða orðið vitni að slíku. Þessar tölur eru sambærilegar tölum á landsvísu, það dregur þó ekki úr alvarleika málsins. Ljóst er að við höfum í höndunum ungmenni sem huga þarf sérstaklega að.
Það er ekkert launungamál að áhyggjur eru af síma- og samfélagsmiðlanotkun ungmenna. Niðurstöðurnar sýna að frá 84% nemenda í 6. bekk og yfir í 97% í 10. bekk eru á samfélagsmiðlum. Stór hluti hefur reynt að minnka tíma sinn á samfélagsmiðlum án árangurs en þriðjungur nemenda í 10. bekk upplifir vanlíðan geti þeir ekki notað miðlana. Vitað mál er að mikið magn rangra upplýsinga sveima þar um sem ýtt geta undir fordóma, kvenhatur, ofbeldishegðun o.fl. Hér þarf að bregðast við.
Þó Akureyrarbær sé barnvænt sveitarfélag telja aðeins 10-21% nemenda sig þekkja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna vel. Um 30-50% nemenda finnst þeir fá tækifæri til að hjálpa til við að ákveða og skipuleggja skólaviðburði og skólaverkefni og 44-74% nemenda upplifa að tekið sé mark á hugmyndum þeirra. Nú er Akureyrarbær í sókn hvað varðar innleiðingu Réttindaskóla og er von bundin við að með fjölgun þeirra muni þekking á réttindum barna og þátttaka þeirra í skólastarfi aukast.
Frekari upplýsingar
Fyrir frekari niðurstöður á rannsókninni er bent á heildarskýrslu fyrir Akureyrarbæ, samantekt frá opna kynningarfundinum og heimasíðu íslensku æskulýðsrannsóknarinnar iae.is þar sem hægt er að skoða skýrslur og fletta upp ákveðnum efnisatriðum.