Mikill fjöldi gesta á tjaldsvæðinu á Hömrum í haust

Mynd: Ásgeir Hreiðarsson
Mynd: Ásgeir Hreiðarsson

Mikill gestagangur hefur verið á tjaldsvæðinu á Hömrum í haust. Samkvæmt Ásgeiri Hreiðarssyni, framkvæmdarstjóra Hamra, hefur vetraraðsóknin aukist ár frá ári. „Í október í fyrra vorum við með 1800 gistinætur. Nú þegar erum við komin upp í sömu tölu og eigum enn nokkra daga inni. Mest hafa verið 127 gestir á nóttu og aldrei færri en 37.“

Samkvæmt Ásgeiri hafa Bandaríkjamenn verið duglegastir að heimsækja tjaldsvæðið í október, næstir eru Spánverjar, Þjóðverjar og svo Frakkar. „Yfir allt árið var röðin Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Frakkar og Spánverjar. Við verðum meira vör við Spánverjana á veturna, sérstaklega fyrir áramót. Það tengist líklega fríum hjá þeim.“

Ásgeir segir að aðstaðan á Hömrum sé góð allt árið. „Þetta er sama aðstaða og á sumrin, nema að bílunum er lagt á bílastæði, en ekki á flötinni. Gestir hafa aðgang að salerni, sturtum, eldhúsi, rafmagni og vatni. Eldhúsið er þó full lítið og þegar 20-30 hópar eru að elda morgun- eða kvöldmat, verður þröngt, enda er þetta minna eldhús en flestir hafa heima hjá sér.“

Hann segir flesta gesti gista í bílum en að alltaf séu einhverjir sem velji að sofa í tjaldi. “Það er velkomið að gista í tjöldum en menn þekkja misvel til íslenska vetrarins. Einn gestanna í febrúar vildi til að mynda fá að vita hvar grasið væri. Margir þessara gesta eru að koma til Íslands í annað skipti og vilja heimsækja landið á öðrum árstíma og svo er stór hópur í norðurljósa-hugleiðingum. Flestir gista aðeins eina nótt, koma seinnipartinn og eru farnir fyrir hádegi en þá týnast bæjarbúar og gestir oft að tjaldsvæðinu til að stunda sitt vetrarsport, sem gerir það stundum erfitt að finna tíma til að hreinsa snjóinn af bílastæðunum.”

Ásgeir segir árið á Hömrum hafa verið gott í heildina. „Það verður aukning um 5-10%. Júní og ágúst voru lélegri en í fyrra, en í júlí var 90% aukning milli ára. Aðsókn fer mikið eftir veðri. Þótt veðrið hafi ekki verið frábært í sumar, var það samt betra hér en annars staðar.“

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan