Hlaupaveislan Súlur vertical hefst í dag

Mynd af www.vikubladid.is.
Mynd af www.vikubladid.is.

Um helgina fer fram hlaupaveislan Súlur vertical á Akureyri. Um 520 einstaklingar á aldrinum 17-68 ára keppa í fjórum vegalengdum, Gyðjunni (100 km), Tröllinu (43 km), Súlum (28 km) og Fálkanum (19 km) þar sem hlaupið er um stórbrotna náttúru í kringum Akureyri. Þátttakendur í Gyðjunni leggja af stað frá Goðafossi, en aðrir frá Kjarnaskógi. Öll hlaupin enda í miðbæ Akureyrar, en lengsta hlaupið er með 3.500 m hækkun þar sem m.a. er hlaupið á Súlur og Vaðlaheiði.

Krakkahlaup Súlur vertical hefur sannarlega slegið í gegn, en fjölmargir tóku þátt í hlaupinu í fyrra og var mikil gleði og margt um manninn í Kjarnaskógi þá. Krakkahlaupið fer fram á morgun föstudag kl:16:00, en frítt er í það hlaup fyrir krakka í boði 66°Norður, Kjarnafæðis og Ölgerðarinnar. Í krakkahlaupinu fara 5 ára og yngri 400 m, 6-8 ára 800 m, 9-12 ára 1200 m og 11-12 ára 2 km.

Það má gera ráð fyrir miklu stuði víða um bæ í tengslum við hlaupið og væntanlega miklum og kröftugum stuðningi áhorfenda. Fyrir þau sem vilja styðja við hlauparana eru nokkrir staðir sem koma til greina, mesta stuðið verður væntanlega í miðbænum við endamarkið. Einnig má gera ráð fyrir fjöri á Súluplani og þá leið sem hlauparar fara frá Fallorkustíg, í gegnum Háskólasvæðið, fram hjá Háskólanum, upp að lögreglustöð og að lokum niður Brekkugötuna niður í miðbæ. Svo verður auðvitað hægt að fylgjast með á samfélagsmiðlum hlaupsins á Instagram og Facebook og á timataka.net með tímunum hlauparanna.

Nánari upplýsingar um Súlur vertical má finna á heimasíðu hlaupsins www.sulurvertical.is.

Akureyrarbær er einn af bakhjörlum Súlur vertical.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan