Svona var staðan sunnudaginn 25. september sl. Mynd: Andrés Rein Baldursson.
Veðurútlit fyrir sunnudag er fremur ískyggilegt og rétt að hvetja fólk til að ganga tryggilega frá eigum sínum svo ekki hljótist tjón af.
Háflóð á Akureyri að morgni sunnudags verður um kl. 10.15 og aftur um kl. 22.30 um kvöldið. Þá er stórstreymt og búast má við mikilli ölduhæð í sterkri norðanátt sem spáð er, með mikilli ofankomu og hitastig verður um eða yfir frostmark.
Minnug þess hvernig fór sunnudaginn 25. september þegar sjór flæddi yfir hluta Oddeyrar, er rétt að vera vel á verði, gera viðeigandi ráðstafanir vegna flóðahættu og ganga vel frá öllu lauslegu til að fyrirbyggja tjón.
Aðgerðarstjórn Almannavarnarnefndar fundaði í morgun og vakt verður hjá öllum viðbragðsaðilum um helgina. Unnið hefur verið að ýmsum úrbótum til að fyrirbyggja að veðrið hafi í för með sér ámóta tjón og varð í flóðunum 25. september.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir allt Norðurland og miðhálendið.