Sigrún María Óskarsdóttir, sálfræðinemi, og Laufey Þórðardóttir undirrita NPA-samninginn.
Sigrún María Óskarsdóttir var á dögunum fyrst til að skrifa undir samning hjá búsetusviði Akureyrarbæjar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) eftir að hann var lögfestur 1. október 2018 með samþykkt nýrra laga frá Alþingi um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Sigrún María er sálfræðinemi á lokaári við Háskólann á Akureyri. Hún segir að þessi þjónusta sé afar mikilvæg og skipti sig miklu máli bæði í náminu og daglegu lífi.
Lögin um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir gilda um fatlaða einstaklinga sem þurfa þjónustu í meira en 15 klukkustundir á viku. Ákvæði laga um félagsþjónustu gilda um þá sem þurfa minni aðstoð. Þá hefur verið skerpt á eftirliti ráðherra með þjónustu sveitarfélaga og reglur um samninga við einkaaðila og starfsleyfisveitingar til einkaaðila eru skýrðar. Þjónustuformið NPA sem hingað til hefur verið rekið sem tilraunaverkefni hefur nú fengið stoð í lögum og hugmyndafræðin um sjálfstætt líf innleitt í öll ákvæði laganna. Fjallað er sérstaklega um frístundaþjónustu við fatlaða nemendur og úrræði fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir. Kveðið er á um skyldur sveitarfélaga til að upplýsa einstaklinga um rétt þeirra til þjónustu og hvaða úrræði standa þeim til boða meðan beðið er eftir þjónustu sem samþykkt hefur verið þeim til handa. Fest er í lög ákvæði um sérstaka samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og einnig skylda ráðherra til að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Sigrúnu Maríu er óskað til hamingju með samninginn og óskað góðs farnaðar og gengis við nám og störf.