Frestun gjalddaga fasteignagjalda fyrir atvinnuhúsnæði

Sumar á Akureyri. Mynd: Auðunn Níelsson.
Sumar á Akureyri. Mynd: Auðunn Níelsson.

Nú geta eigendur atvinnuhúsnæðis sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls, sótt um frestun á allt að þremur greiðslum fasteignagjalda sem eru á gjalddaga 3. apríl til og með 3. september 2020. Gilda þar sömu skilyrði og málsmeðferðarreglur og kveðið er á um í I. kafla í Lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru sem samþykkt voru á Alþingi 30. mars sl. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur réttilega til er 15. janúar 2021.

Umsókn þarf að koma frá skráðum greiðanda fasteignagjalda. Í tilvikum þar sem fleiri en einn greiðandi er skráður á sömu eign þarf hver og einn greiðandi að skila inn umsókn fyrir sinn greiðsluhluta.

Sótt er um í þjónustugátt á heimasíðu sveitarfélagsins, Akureyri.is, undir „Umsóknir". Til að skrá sig inn á þjónustugáttina þarf umsækjandi að hafa rafræn skilríki eða íslykil fyrir kennitöluna sem sótt er um fyrir. Umsóknarfrestur fyrir hvern gjalddaga er til loka sama mánaðar. Dæmi: Ef umsókn berst eftir 30.4.2020 er apríl ekki tekinn með í frestun gjalddaga þó hakað sé við hann í umsókninni.

Þessi rýmkun gjalddaga á fasteignagjöldum fyrir atvinnuhúsnæði er hluti af aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar til að bregðast við samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum Covid-19.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan