Fyrir skemmstu var tekin í notkun ný útgáfa af Þjónustugátt Akureyrarbæjar sem er hraðvirkari en sú fyrri og skalast betur í snjalltækjum, þ.e.a.s. er auðveldari í notkun í öllum skjástærðum. Til dæmis er auðveldara en áður að lesa og undirita skjöl í snjalltækjum.
Umsóknaform eru einnig mun notendavænni en í gömlu útgáfunni. Til dæmis er hægt að leita eftir umsóknum eftir efnisorðum sem ætti að auðvelda fólki að finna rétta umsókn. Einnig er búið að þrepaskipta umsóknum eftir málaflokkum og gera þær aðgengilegri. Í dag eru í kringum 150 rafræn umsóknaform í gáttinni og er sífellt unnið að því að fjölga þeim og bæta.
Áhersla hefur verið lögð á að gáttin sé nothæf á fleiri tungumálum og er vinna langt komin við pólska og enska útgáfu með ritstýrðri þýðingarvél. Ennþá finnast þó ákveðnar villur í þýðingum sem unnið er að því að laga.
Innskráning í nýju útgáfuna er í gegnum Ísland.is. Þetta felur í sér að ekki er lengur hægt að nota Íslykil en hægt er að velja um að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða auðkennisappi. Prókúruhafar fyrirtækja fá nú upp val um hvort þeir skrá sig inn sem einstaklingur eða fyrir hönd fyrirtækis.
Áfram verður unnið að því að þróa gáttina og gera hana enn betur úr garði til að mæta öllum óskum og þörfum íbúa. Er þetta mikilvægur liður í stafrænni sókn sveitarfélagsins þar sem markmiðin eru meðal annars að stytta leið íbúa að þjónustunni.
Ef fólk hefur ábendingar um virkni Þjónustugáttarinnar má gjarnan senda ábendingar í gegnum ábendingavefinn á heimasíðu sveitarfélagsins.