Alls konar vetrarfrí á Akureyri

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Vetrarfrí eru hafin í grunnskólum Akureyrar og einnig í grunnskólum Reykjavíkur, Kópavogs og Hafnarfjarðar. Straumur fólks liggur norður til Akureyrar þar sem fjölskyldan getur notið góðrar samveru á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og með ýmsu öðru móti.

Veður á Akureyri er nú með blíðasta móti og má hér um bil segja að það sé vor í lofti. Snjóalög á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli eru góð og brekkurnar líta vel út. Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli segist hafa örlitlar áhyggjur af vindi á föstudag en að oft verði minna úr en spár geri ráð fyrir.

"Það er góð skráning í skíðaskólann hjá okkur sem ásamt með öðru gefur vísbendingu um að það séu margir á leiðinni norður. Veðrið er náttúrlega næstum því of gott en færið er fínt og vonandi verður þetta bara frábær og fjölmenn helgi í blíðunni því maður er manns gaman," segir Brynjar Helgi.

Þeir sem ekki hafa hug á því að renna sér á skíðum geta fundið ótal aðra möguleika til að njóta lífsins í vetrarfríi á Akureyri. Á heimasíðunni halloakureyri.is hefur verið birt yfirlit yfir alls konar skemmtun, útivist og afþreyingu sem hægt er að njóta á Akureyri í vetrarfríinu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan