Birna framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi afhendir Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra og Ungmennaráði Akureyrar fána til marks um að vera barnvænt sveitarfélag.
Þann 7. febrúar síðastliðinn endurnýjaði UNICEF viðurkenningu Akureyrarbæjar sem barnvænt sveitarfélag. Það sem liggur viðurkenningunni til grundvallar er mikil vinna undanfarin þrjú ár eða síðan sveitarfélagið fékk viðurkenninguna í fyrsta sinn. Miklar breytingar hafa orðið hjá sveitarfélaginu sem höfðu áhrif á framgang verkefnisins. Sem dæmi má nefna uppstokkun í skipuriti sveitarfélagsins, breytingar innan þess sviðs sem verkefnið tilheyrir og miklar starfsmannabreytingar. Samhliða þessum breytingum var mikil framþróun í verkefninu Barnvæn sveitarfélög, afar jákvæð þróun og höfum við þurft að endurskoða og ramma verkefnið okkar megin svolítið upp á nýtt. Þessi ár hafa kennt okkur margt og gerir það enn gleðilegra að þessi áfangi hafi náðst. Við hæfi er að minnast á hve Ungmennaráð Akureyrar hefur þróast vel og hve mikið hlutverk þess hefur styrkst og orðið mikilvægara. Það ber að þakka.
Aðgerðaráætlun og önnur verkefni
Mörg verkefni hafa verið í gangi og nokkur þeirra eru í aðgerðaráætlun verkefnisins sem lesa má nánar um í lokaskýrslu sem hlekkjuð er neðst í fréttinni. Aðgerðaráætlunin telur 17 fjölbreyttar aðgerðir sem eiga það allar sameiginlegt að stuðla að bættum hag barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Auk þessara aðgerða hafa fjölmörg önnur stórkostleg verkefni verið unnin undanfarin ár sem styðja við réttindi barna, að raddir þeirra fái að heyrast og að tekið sé mark á þeim. Kom það einnig bersýnilega í ljós í úttektarviðtölum UNICEF við starfsfólk bæjarins í aðdraganda viðurkenningarinnar. Aðgerðaráætlun er meðal annars byggð á niðurstöðum stöðumats, svo sem barnaþingum og öðrum upplýsingum um stöðu barna, þekkingu starfsfólks sveitarfélagsins á réttindum barna og framkvæmd þeirra.
Hinseginleikinn og óskir barna
Sem dæmi um aðgerðir út áætluninni má nefna Hinsegin félagsmiðstöð og Hinsegin landsmót. Starfsmenn félagsmiðstöðva Akureyrarbæjar hafa í samtölum sínum við hinsegin ungmenni tekið eftir mikilli þörf fyrir sérstakan vettvang fyrir þau og vini þeirra. Árið 2022 var opnuð Hinsegin félagsmiðstöð [Hinsegin FélAk] fyrir öll ungmenni á aldrinum 13-16 ára sem eru hinsegin, í hinsegin pælingum eða styðjandi vinir. Í framhaldi fóru ungmennin að óska eftir sameiginlegum hitting á stærra sviði og úr varð Hinsegin landsmót fyrir ungmenni á aldrinum 13-16 ára, sem haldið var í fyrsta sinn á Íslandi árið 2023.
Horfum bjartsýn fram veginn
Eins og mörg vita þá er engin endastöð í verkefninu, eins og Birna framkvæmdarstjóri UNICEF orðaði svo vel í erindi sínu „verkefnið er hjól og hjól heldur áfram að snúast“. Við erum því hvergi nærri hætt þó viðurkenning sé komin í hús. Við þurfum að vanda okkur, halda dampi og tryggja verkefnið þannig að í sessi að þó breytingar verði að þá haldi verkefnið alltaf sterkri stöðu sinni. Þannig er krafa um þverpólitíska samstöðu með verkefninu svo mikilvæg og ekki síður samstaða íbúa sveitarfélagsins varðandi verkefnið. Því við getum öll, með einum eða öðrum hætti, haft áhrif á líf barna í sveitarfélaginu með ákvörðunum í okkar lífi og starfi.
Til hamingju Akureyrarbær!
Smelltu hér til að skoða lokaskýrslu Akureyrarbæjar