Samsafn mynd af ungmennaþingi SSNE 2023
Dagana 21. - 22. nóvember stóð SSNE fyrir afar vel lukkuðu ungmennaþingi í félagsheimilinu á Raufarhöfn. Var það í þriðja sinn sem þingið er haldið á vegum SSNE en verkefnið er áhersluverkefni. Markmiðið þingsins er að búa til vettvang fyrir ungt fólk á aldrinum 13-18 ára þar sem það fær tækifæri til að ræða málefni sem brenna á þeim og koma skoðun sínum á framfæri. Jafnframt er eitt af markmiðum þessa viðburðar að stuðla að tengslamyndun þvert á sveitarfélögin og efla tengsl þeirra við SSNE.
Í ár var þema þingsins menning og skapandi greinar. Hátt í 40 ungmenni á aldrinum 13-18 ára frá flestum sveitarfélögum landshlutans sóttu þingið, ásamt starfsfólki sveitarfélaganna. Starfsfólk SSNE fór yfir verkfæri sem stuðlað geta að hamingju í landshlutanum okkar, skapað breytingar og eflt byggðir. Þá kom Örlygur Hnefill, menningarfrumkvöðull, með kynningu um mikilvægi sagna í samfélögum og stýrði vinnustofunni Alþjóðlegur kvikmyndaiðnaður á Íslandi og skapandi viðburðarhald. Ungmennin voru hvött til skapandi hugsunar og nýsköpunar til að takast á við áskoranir sem tengjast búsetu og sjálfbærri framtíð í landshlutanum.
Niðurstöður ungmennaþingsins verða teknar saman af starfsmönnum sveitarfélaganna og afhentar stjórn SSNE, sem mun nýta þær í vinnu Sóknaráætlunar á komandi árum. Þær verða einnig kynntar á næstu vikum á heimasíðu SSNE.
Við þökkum Raufarhöfn fyrir góðar móttökur. Framtíðin er björt með þetta flotta unga fólk í fararbroddi í landshlutanum.