Alþjóðadagur barna, 20. nóvember. UNICEF
Alþjóðadag dagur barna er haldinn hátíðlegur í dag um heim allan. Í tilefni dagsins munu íbúar Akureyrarbæjar geta séð falleg blá ljós í Ráðhúsinu, Hofi og Listasafni Akureyrar lýsa upp skammdegið næstu daga.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á einnig afmæli sama dag. Sáttmálinn, sem samþykktur var af þjóðarleiðtogum fyrir rúmlega þrjátíu árum síðan, er útbreiddasti mannréttindasáttmála heims og hefur tilkoma hans breytt lífi ótal barna til hins betra. Réttindi of margra barna eru þó enn brotin, svo sem réttur þeirra til menntunar og verndar gegn ofbeldi og mismunun, svo fátt eitt sé nefnt. Þekking á réttindum barna, bæði meðal fullorðinna og ekki síst barnanna sjálfra er grundvöllur þess að réttindi þeirra séu virt. Öflugasta vopnið gegn fordómum, hatursorðræðu og mismunun er fræðsla og upplýstar samræður.
Ísland stendur framarlega þegar kemur að réttindum og velferð barna þó ávallt megi gera betur, fyrir öll börn. Mörg sveitarfélög eru í miðri vinnu eða áframhaldandi vinnu við innleiðingu Barnasáttmálans gegnum verkefnið Barnvænt sveitarfélag og eru þannig að tileinka sér barnaréttindanálgun í verkefnum, stefnumótun og ákvörðunum. Akureyrarbær stefnir að endur viðurkenningu á vordögum en um er að ræða verkefni sem sífellt þarf að hlúa að því málefnin verða ekki mikið mikilvægari en börnin okkar og réttur þeirra til að njóta lífsins.
UNICEF á Íslandi hefur sett í gang nýtt kynningarátak í tilefni af Alþjóðadegi barna. Var það gert nú á dögunum með frumsýningu á áhrifamiklu myndbandi um Réttindaliðið. Skilaboð myndbandsins eru sterk þar sem athygli er vakin á réttindum barna, að öll börn séu jöfn og við þurfum öll að vera saman í liði til að tryggja þau og sýna samstöðu gegn fordómum, mismunun og réttindabrotum. Fjölbreyttur hópur talsmanna kemur fram í myndbandinu í þeim tilgangi að varpa ljósi á mikilvægi fjölbreytileika, jafnréttis og þátttöku. Myndbandið var framleitt í samstarfi við Hannes Þór Halldórsson leikstjóra og fyrrverandi landsliðsmarkvörð og Hannes Þór Arason, kvikmyndaframleiðanda.
Smelltu hér til að horfa á myndbandið!
Sagan sýnir okkur að mikil og góð vinna hefur verið unnin, möguleikarnir eru þó miklir til að gera betur. Engin ástæða er til að slaka á þegar kemur að réttindum barna, það er í okkar höndum að standa vörð um þau og koma fram við öll börn af virðingu. Börnin eru okkur allt.
Tökum höndum saman. Skráðu þig til leiks í Réttindaliðinu!
Til hamingju með daginn, öll sömul!