Skýringaruppdráttur sem sýnir umræddan reit
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur samþykkt að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi bæjarins í tengslum við byggingu á nýjum leikskóla í Hagahverfi. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu er kynning á skipulagslýsingu fyrir verkefnið.
Í gildandi Aðalskipulagi er gert ráð fyrir leikskóla á lóð við Naustagötu 11. Vegna áherslubreytinga innan fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrar þótti sú lóð ekki henta undir fyrirhugaðan leikskóla og var tekin ákvörðun um að flytja hana austar á lóð sem í dag heitir Naust 2. Þessi færsla hefur í för með sér að breyta þarf aðalskipulagi á svæðinu og tók skipulagsráð og bæjarstjórn því ákvörðun um að endurskoða aðalskipulag fyrir allt svæðið sem afmarkast af Naustagötu í norðri, Naustabraut í austri, Davíðshaga í suðri og Kjarnagötu í vestri.
Gera þarf breytingar á gildandi aðalskipulagi Akureyrar (sjá hér) til samræmis við skipulagstillögu fyrir framkvæmdina og munu þær felast í breytingum á landnotkunarflokkum og skipulagsákvæðum auk afmörkunar á flutningslínu rafkerfis á þéttbýlisuppdrætti.
Skipulagslýsinguna má nálgast hér.
Ábendingum þar sem nafn, heimilisfang og kennitala kemur fram má skila með tölvupósti á skipulag@akureyri.is eða bréfleiðis til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrar, Geislagötu 9, 600 Akureyri og á skipulagsgátt.is
Frestur til að koma ábendingum á framfæri er til 13. febrúar 2024.
Athugasemdir teljast til opinberra gagna. Nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir koma fram í fundargerðum skipulagsráðs á heimasíðu Akureyrarbæjar. Persónuupplýsingar sem fylgja athugasemdum, s.s. kennitala, nafn og netfang, eru aðeins nýttar til að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda. Sjá nánar um meðferð persónuupplýsinga hjá Akureyrarbæ hér.