Samfélags- og mannréttindaráð

87. fundur 18. maí 2011 kl. 16:45 - 18:50 Fundarherbergi á 3. hæð í Rósenborg
Nefndarmenn
  • Hlín Bolladóttir formaður
  • Brynjar Davíðsson
  • Helga Eymundsdóttir
  • Jóhann Gunnar Sigmarsson
Starfsmenn
  • Katrín Björg Ríkarðsdóttir fundarritari
Dagskrá

1.Niðurgreiðsla æfinga- og þátttökugjalda

Málsnúmer 2006040018Vakta málsnúmer

Kristinn H. Svanbergsson íþróttafulltrúi kynnti úthlutunarreglur vegna niðurgreiðslu þátttökugjalda barna og unglinga í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi.

Samfélags- og mannréttindaráð þakkar Kristni fyrir kynninguna og óskar eftir að haft verði samráð þegar og ef breytingar verða gerðar.

2.Félagsmiðstöðvar - stefnumótun

Málsnúmer 2011020029Vakta málsnúmer

Samfélags- og mannréttindaráð samþykkti á fundi sínum 16. febrúar sl. að fela vinnuhópi skipuðum fulltrúum úr samfélags- og mannréttindaráði og frá samfélags- og mannréttindadeild að móta framtíðarsýn fyrir félagsmiðstöðvar unglinga. Tillögur vinnuhópsins voru lagðar fyrir ráðið.
Fulltrúar í vinnuhópnum þau Alfa Aradóttir forstöðumaður forvarna- og æskulýðsmála, Gunnlaugur V. Guðmundsson og Linda Björk Pálsdóttir umsjónarmenn félagsmiðstöðva sátu fundinn undir þessum lið.

Samfélags- og mannréttindaráð samþykkir framlagða tillögu og vísar óskum um aukið fjármagn til bæjarráðs. Ráðið leggur áherslu á að málinu verði veitt brautargengi þar sem starfsemi félagsmiðstöðva er orðin mun faglegri en áður og hefur allar forsendur forvarna í víðum skilningi. Ráðið sér eflingu félagsmiðstöðva sem leið til að bregðast við þeim vísbendingum um að í þeim sveitarfélögum þar sem skorið hefur verið niður í starfsemi félagsmiðstöðva hafi neysla vímuefna aukist til muna. Samfélags- og mannréttindaráð lítur því á þetta sem nauðsynlegt tækifæri til inngrips.

3.Jafnréttisstefna Akureyrarbæjar 2008-2011

Málsnúmer 2008090024Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðu endurskoðunar.

4.Kynjuð fjárhagsáætlanagerð

Málsnúmer 2011030090Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 14. apríl 2011:
Jón Bragi Gunnarsson hagsýslustjóri sagði frá námskeiði sem hann sótti um kynjaða fjárhagsáætlanagerð.
Einnig lögð fram eftirfarandi tillaga Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur V-lista sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 15. mars sl. að vísa til bæjarráðs:
Í tilefni af umræðu um þriggja ára fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar leggur bæjarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til að fylgt verði markaðri stefnu ríkisins og horft til áhrifa ráðstöfunar fjármuna á konur og karla og tekin upp vinnubrögð kynjaðrar fjárlagagerðar. Kynjuð fjárhagsáætlanagerð sem þessi kallar á breytingar í hugsun og ekki síður í verki en slíkar breytingar eru nauðsynlegar til að auka jafnrétti kynjanna, en tilgangurinn er að tryggja að allir bæjarbúar sitji við sama borð óháð kyni eins og lög gera ráð fyrir. Kynjuð fjárlagagerð horfir á fjárhagsáætlanaferlið út frá áhrifum á kynin. Þannig er tekju- og gjaldahlið fjárhagsáætlunar endurskipulögð til að tryggja að ráðstöfun fjármuna hafi jöfn áhrif á konur og karla. Á tímum niðurskurðar líkt og blasa við okkur nú er mjög mikilvægt að greina áhrif hagræðingaraðgerða á karla og konur og ekki er síður mikilvægt að auka gagnsæi í fjármálum sveitarfélagsins og gera enn betur sýnilegt hvernig opinberu fé er varið, en kynjuð fjárhagsáætlanagerð stuðlar einmitt að þeim markmiðum.
Bæjarráð þakkar Jóni Braga kynninguna.
Bæjarráð telur bæði sjálfsagt og eðlilegt að hugmyndafræði kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar sé höfð til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar og að samfélags- og mannréttindaráð taki málið upp og skoði hvort og hvernig þessi aðferðarfræði getur gagnast bæjarfélaginu.
Bæjarráð vill ennfremur leggja áherslu á að fyrirkomulag við fjárhagsáætlanagerð, ásamt jafnréttisáætlun bæjarins, sem og fjölmargar vinnureglur, samþykktir og lög sem unnið er eftir séu vel til þess fallin að tryggja jafnan rétt íbúa sveitarfélagsins, óháð kyni, efnahag, kynþætti eða þjóðerni.

Samfélags- og mannréttindaráð mun í endurskoðaðri jafnréttisstefnu kveða á um vinnu í anda kynjaðrar fjárhagsáætlanagerðar.

5.Starfsemi samfélags- og mannréttindadeildar 2011

Málsnúmer 2011050070Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur að tilfærslu verkefna innan deildarinnar. Forvarnamál munu færast undir framkvæmdastjóra í stað þess að tilheyra æskulýðsmálum og undir æskulýðsmál munu heyra þau verkefni sem sinnt var í Menntasmiðju unga fólksins sem og verkefni sem samfélags- og mannréttindadeild tók við frá Vinnuskólanum.

Samfélags- og mannréttindaráð samþykkir tillöguna.

Fundi slitið - kl. 18:50.