Glerárgata 26 - endurbætur og nýr leigusamningur 2024

Málsnúmer 2024031281

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3853. fundur - 20.06.2024

Lögð fram til kynningar drög að nýjum húsaleigusamningi við Reyki fasteignafélag ehf. um fasteignina Glerárgötu 26 þar sem velferðarsvið og fræðslu- og lýðheilsusvið bæjarins eru með aðstöðu. Samningurinn er til 15 ára og er gert ráð fyrir að húsnæðið verði uppfært og endurbætt áður en hann tekur gildi.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Hulda Sif Hermannsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Sif Jóhannesar Ástudóttir V-lista óska bókað:

Mun betra, bæði fjárhagslega og faglega, hefði verið líkt og áður var fyrirhugað, að sameina alla stjórnsýslu sveitarfélagsins undir einu þaki í húsnæði sem væri alfarið í eigu Akureyrarbæjar og ná þannig fram töluverðu hagræði og mun lægri rekstrarkostnaði til lengri tíma. Hefði verið staðið við þá ákvörðun sem bæjarstjórn tók á sínum tíma, þá væri líklega um þessar mundir orðin að veruleika framtíðarlausn fyrir alla miðlæga stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Bæjarráð - 3854. fundur - 27.06.2024

Lagður fram til samþykktar nýr húsaleigusamningur við Reyki fasteignafélag ehf. um fasteignina Glerárgötu 26 þar sem velferðarsvið og fræðslu- og lýðheilsusvið bæjarins eru með aðstöðu. Samningurinn er til 15 ára og er gert ráð fyrir að húsnæðið verði uppfært og endurbætt.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Hulda Sif Hermannsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra sátu fundinn undir þessum lið.

Bæjarráð hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í júlí og ágúst 2024 sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar 18. júní sl.


Meirihluti bæjarráðs samþykkir framlagðan leigusamning við Reyki fasteignafélag ehf. um fasteignina Glerárgötu 26.

Sindri Kristjánsson S-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista sitja hjá.


Sindri Kristjánsson S-lista og Sif Jóhannesar Ástudóttir V-lista óska bókað:

Fyrir rétt tæpum þremur árum birtist á vef bæjarins tilkynning um að niðurstaða væri komin í hugmyndasamkeppni um viðbyggingu og endurbætur á ráðhúsinu á Akureyri. Þar var endahnútur bundinn á verkefni þar sem óskað var eftir tillögum að framtíðarsýn um að koma allri stjórnsýslu bæjarins fyrir á einum og sama staðnum. Tilkynningin er enn aðgengileg á vef Akureyrarbæjar. Málið sem hér er til umræðu er afleiðing ákvörðunar meirhluta L-lista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins um að hætta við þessi áform. Þeirri ákvörðun erum við alfarið ósammála. Ljósið í myrkrinu er að í staðinn verður ráðist í bráðnauðsynlegar endurbætur á húsnæðinu á Glerárgötu 26 starfsfólki og notendum til mikilla hagsbóta.