Hjúkrunarheimili - nýbygging

Málsnúmer 2023011165

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3795. fundur - 26.01.2023

Umræða um byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Lögmannshlíð og stækkun þess frá því sem áður hafði verið samið um í samræmi við breytingar á skipulagi svæðisins.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að nýtt hjúkrunarheimili við Lögmannshlíð verði stækkað úr 60 rýmum í 80 rými í samræmi við breytingar á skipulagi svæðisins og óskar eftir því við heilbrigðisráðuneytið að gerður verði viðauki við fyrri samning um bygginguna til samræmis við stækkunina.

Bæjarráð - 3799. fundur - 23.02.2023

Lögð fram drög að viðaukasamningi við heilbrigðisráðuneytið vegna stækkunar nýs hjúkrunarheimilis við Lögmannshlíð á Akureyri í samræmi við bókun bæjarráðs frá 26. janúar sl. Einnig er lagt fram minnisblað Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna dagsett 13. febrúar með uppfærðu mati á heildarkostnaði og framkvæmdatíma vegna nýbyggingarinnar.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir viðaukasamninginn og felur bæjarstjóra að undirrita hann.

Bæjarráð - 3870. fundur - 21.11.2024

Lagt fram samkomulag heilbrigðisráðuneytisins og Akureyrarbæjar um breytt fyrirkomulag vegna byggingar hjúkrunarheimilis á Akureyri fyrir allt að 80 rými. Samkomulagið gerir ráð fyrir að nýtt hjúkrunarheimili verði reist á lóð við Þursaholt í stað Vestursíðu 13 eins og kveðið var á um í fyrra samkomulagi. Breytingin er í samræmi við áform bæjarins um uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sátu fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir samkomulagið með þeim fyrirvara að láta reyna á þann rétt Akureyrarbæjar að innheimta gatnagerðar- og byggingargjöld og lóðarleigu af lóðinni hjá byggingaraðila í samræmi við 2. mgr. 32. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007.


Bæjarráð telur það algjört forgangsmál að nýtt hjúkrunarheimili verði tekið í notkun á Akureyri eins fljótt og auðið er, enda sár þörf fyrir fleiri hjúkrunarrými í sveitarfélaginu.

Ríkið leggur nú til í fyrsta sinn að einkaaðili byggi og eigi hjúkrunarheimili. Því miður er þó gerð krafa um að sveitarfélagið gefi eftir gatnagerðargjöld, þvert á það sem sagt er fyrir um í lögum.

Bæjarráð telur í ljósi stöðunnar ákaflega mikilvægt að það samkomulag sem liggur fyrir verði undirritað, með fyrirvara er lítur að gatnagerðargjöldum. Mikilvægt er að ólíkur skilningur ríkis og sveitarfélags er varða gatnagerðargjöld verði leyst, án þess að sá ágreiningur tefji uppbyggingu hjúkrunarheimilisins, enda væri það með öllu óboðlegt.