Grímsey - umræða

Málsnúmer 2023011140

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3524. fundur - 21.02.2023

Rætt um málefni Grímseyjar.

Halla Björk Reynisdóttir fór meðal annars yfir stöðu mála og næstu skref við lok byggðaþróunarverkefnisins Glæðum Grímsey, skipulagsmál, orkumál, sorpmál og atvinnumál. Þá vakti hún einnig athygli á samgöngumálum og lagði fram tillögu að bókun.

Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi bókun með 11 samhljóða atkvæðum:

Nú liggur fyrir að Sæfari fari í slipp í 6-8 vikur í apríl og maí og íbúar hafa ekki fengið upplýsingar um hvað tekur við. Bæjarstjórn Akureyrarbæjar skorar á Vegagerðina að leggja án tafar fram lausn á því hvernig skuli leysa ferjuna af hólmi þann tíma sem hún er í slipp og eyða þeirri óvissu sem upp er komin.

Þess má geta að um 60 manns eru með lögheimili í Grímsey auk árstíðabundinna íbúa sem dvelja tímabundið í eyjunni, til dæmis vinir, ættingjar, strandveiðimenn og aðrir sem vinna að ýmsum verkefnum í Grímsey um lengri eða skemmri tíma. Nauðsynlegt er fyrir þetta fólk að tryggar og áreiðanlegar samgöngur séu til og frá eyjunni, auk þess sem flytja þarf þangað tæki, tól og varning.

Bæjarráð - 3811. fundur - 01.06.2023

Bergþóra Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Vegagerðar og Halldór Jörgensson forstöðumaður hjá Vegagerðinni mættu á fund bæjarráðs í gegnum fjarfundarbúnað og fóru yfir stöðu mála varðandi samgöngur til og frá Grímsey, í ljósi þess að ferjan Sæfari er enn í slipp.

María H. Tryggvadóttir verkefnastjóri ferðamála hjá Akureyrarbæ sat einnig fund bæjarráðs undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.
Bæjarráð Akureyrar lýsir yfir vonbrigðum með þjónustu Vegagerðarinnar við íbúa Grímseyjar. Ítrekaðar seinkanir hafa orðið á viðgerð Grímseyjarferjunnar Sæfara og skort hefur á viðvarandi flug meðan á henni stendur. Þetta þýðir mjög skerta þjónustu við eyjarskeggja og bitnar harkalega á ferðaþjónustunni í eyjunni sem reiðir sig algjörlega á sumarmánuðina í rekstri. Bæjarráð skorar á Vegagerðina að bæta upplýsingagjöf til farþega, bæði á íslensku og ensku, fjölga flugferðum og tryggja hagstæð flugfargjöld meðan á viðgerðum á ferjunni stendur.

Bæjarstjórn - 3551. fundur - 15.10.2024

Umræða um stöðu atvinnumála í Grímsey.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.

Til máls tóku Jón Hjaltason og Halla Björk Reynisdóttir.

Grímsey er einstök eyja við heimskautsbaug þar sem hefur verið byggð frá landnámi og mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að styðja við byggðarlagið.

Eins og staðan er nú er nær ómögulegt að halda uppi landvinnslu í eyjunni vegna landfræðilegrar stöðu. Á síðasta ári var ferjan í slipp í 12 vikur. Augljóst er að erfitt er því að treysta á ferjusiglingar með hráefni til og frá eyjunni.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar skorar því á ríkisvaldið að framlengja undanþágu á vinnsluskyldu á sértækum byggðakvóta þannig að byggð megi haldast áfram í Grímsey.