Umræða um málefnasamning meirihluta bæjarstjórnar að ósk Gunnars Gíslasonar D-lista með hliðsjón af bókun minnihlutans á síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem óskað var eftir skriflegum svörum meirihlutans við spurningum sem minnihluti bæjarstjórnar lagði fram á fundinum.
Málshefjandi Gunnar Gíslason tók til máls og spurði m.a. hvort von væri á skriflegum svörum eins og um var beðið.
Í umræðum tóku til máls Halla Björk Reynisdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Gunnar Gíslason, Sóley Björk Stefánsdóttir, Eva Hrund Einarsdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Gunnar Gíslason (í annað sinn), Guðmundur Baldvin Guðmundsson (í annað sinn), Ingibjörg Ólöf Isaksen (í annað sinn) og Hilda Jana Gísladóttir (í annað sinn).
Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins óskuðu eftir að eftirfarandi yrði bókað:
Málefnasamningur meirihlutans sem hér hefur verið til umræðu hefur þann galla að ekki er nokkur leið að lesa út úr honum hvað meirihlutinn hyggst fyrir á kjörtímabilinu og því fullkomlega óhæfur sem umræðugrundvöllur um stefnu og áherslur meirihlutans.
Ef ætlunin er að láta hendur standa fram úr ermum á kjörtímabilinu óskum við eftir því að fyrirætlanir meirihlutans verði til umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar og til grundvallar umræðunni liggi spurningar þær sem við höfum lagt fram hér á fundinum og skrifleg svör meirihlutans við þeim. Skjal með spurningunum er lagt fram sem fylgiskjal við fundargerðina þar sem þær eru of margar til að rúmast í einni bókun.
Sé ætlunin að komast í gegnum annað kjörtímabil án mikilla aðgerða er eðlilegt að horft sé framhjá þessari beiðni.