Þann 12. desember 2017 samþykkti bæjarstjórn Akureyrarbæjar, í kjölfar #metoo umræðu í samfélaginu, að fela bæjarráði að skipa starfshóp sem hefði það verkefni að útbúa viðbragðsáætlun vegna ofbeldis, áreitis og/eða kynferðislegrar áreitni sem kjörnir fulltrúar kunna að verða fyrir í störfum sínum fyrir bæinn. Áætlun skyldi unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokka á Akureyri. Starfshópurinn fékk einnig það verkefni að yfirfara siðareglur og nýliðafræðslu kjörinna fulltrúa.
Eva Hrund Einarsdóttir gerði grein fyrir störfum hópsins.
Í umræðum tóku til máls Gunnar Gíslason, Hilda Jana Gísladóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Heimir Haraldsson.
Bæjarstjórn felur bæjarráði að skipa starfshóp sem útbýr viðbragðsáætlun vegna ofbeldis, áreitis og/eða kynferðislegrar áreitni sem kjörnir fulltrúar kunna að verða fyrir í störfum sínum fyrir bæinn. Skal þessi áætlun vera unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokka á Akureyri. Eins skal þessi starfshópur yfirfara siðareglur og nýliðafræðslu kjörinna fulltrúa.
Bókunin var borin upp og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.