Svifryk og svifryksmælar

Málsnúmer 2016050038

Vakta málsnúmer

Umhverfisnefnd - 116. fundur - 10.05.2016

Umræður um loftgæði og svifryksmælingar á Akureyri.
Umhverfisnefnd Akureyrarbæjar skorar á Umhverfisstofnun að gera bragarbót á svifryksmæli á Akureyri. Ítrekaðar bilanir hafa verið á mælunum í sveitarfélaginu og óskar umhverfisnefnd eftir því að Umhverfisstofnun komi þessu í þannig ástand að vel verði unað og að hægt sé að treysta mæligildum. Nauðsynlegt sé að hafa virkan mæli svo að hægt sé að meta árangur í baráttunni við svifryk.

Umhverfisnefnd - 117. fundur - 23.08.2016

Umræður um stöðu erindis sem umhverfisnefnd sendi Umhverfisstofnun varðandi svifryksmæla og hugsanleg kaup Akureyrarbæjar á mæli.
Áshildur Hlín Valtýsdóttir Æ-lista vék af fundi kl. 11:22.

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 68. fundur - 15.11.2019

Tekin fyrir bókun 211. fundar heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra sem haldinn var 6. nóvember 2019 varðandi svifryk sem er svohljóðandi:

"Svifryksvandi í Akureyrarbæ er lýðheilsuvandamál sem kallar á ákveðnar úrbætur að hálfu Akureyrarbæjar (gatnakerfi bæjarins) og Vegagerðar ríkisins (þjóðvegir). Heilbrigðisnefnd mælist til þess að Akureyrarbær og Vegagerð ríkisins noti eingöngu salt/saltpækil til hálkuvarna á Akureyri veturinn 2019 til 2020 og meti árangur af þessari breytingu á verklagi m.t.t. svifryks í Akureyrarbæ að loknum vetri.

Jafnframt verði gert átak í því að efla þrif (sópun og smúlun) á götum bæjarins og að notaður verði sjór og eftir atvikum magnesíumklóríð til rykbindingar á götum bæjarins. Gert verði átak í því að fyrirbyggja að óhreinindi berist á götur bæjarins með vörubílum og vinnuvélum af byggingar- og athafnasvæðum (krafa um vandað verklag og að verktakar þrífi upp eftir sig ef óhreinindi berast út á götur).

Þá er minnt á mikilvægi þess að koma á framfæri fræðslu og upplýsingu til bæjarbúa um mikilvægi þess að velja naglalaus vetrardekk frekar en nagladekk m.t.t. svifryks og lýðheilsu.

Að lokum er gerð tillaga um að Akureyrarbær og Akureyrarhöfn fjárfesti í færanlegum svifryksmæli sem verði notaður gagngert til þess að fylgjast með svifryki víðsvegar í bænum og einnig vegna mengunar frá skemmtiferðaskipum í Akureyrarhöfn (færanlegur mælir til viðbótar við fasta mælistöð sem er til staðar í miðbænum)."

Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpdeildar, Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfismála og Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra sátu fundinn undir þessum lið.
Umhverfis- og mannvirkjaráð þakkar heilbrigðisnefnd fyrir sínar ábendingar og mun fylgja þeim eftir með gerð aðgerðaáætlunar og viðeigandi aðgerðum fram að því. Ráðið felur starfsmönnum umhverfis- og mannvirkjasviðs að útfæra aðgerðaáætlun til þess að lágmarka svifryk og leggja fyrir ráðið á næsta fundi.

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 69. fundur - 29.11.2019

Farið yfir reynslu síðustu vikna, rædd staða aðgerðaáætlunar og lausnir á svifryksvandanum.

Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpmála og Hrafn Svavarsson forstöðumaður umhverfismiðstöðvar sátu fundinn undir þessum lið.
Það er forgangsmál hjá Akureyrarbæ að fækka þeim dögum á ári hverju sem svifryk fer yfir heilsuverndarmörk, enda er talið að það sé fjöldi ótímabærra dauðsfalla á ári hverju á Íslandi vegna svifryks. Undanfarnar vikur hefur verið notaður sjór og saltvatn á götur til að binda ryk og hefur það virkað mjög vel til að hemja rykið, en hins vegar haft þá óheppilegu hliðarverkun að þegar hitastig fer yfir frostmark þá myndast leðja á götunum. Undirliggjandi ástæða þess er að göturnar eru skítugar. Nú er unnið að því að móta stefnu um aðgerðir gegn hálku og svifryki, og mun hún meðal annars fela í sér aukinn snjómokstur og að göturnar verði þrifnar oftar og betur en tíðkast hefur. Því er lagt til að Akureyrarbær kaupi nýjan og öflugan bíl til að sópa og þvo götur. Leitast verður við að finna heildarlausn sem felur í sér mikinn árangur í baráttu við svifryk og tryggir jafnframt viðunandi hálkuvarnir og sem mesta sátt á meðal bæjarbúa.



Umhverfis- og mannvirkjaráð felur umhverfis- og mannvirkjasviði að framkvæma verðkönnun á götusópum og ljúka við aðgerðaáætlun varðandi svifryk og hálkuvarnir.

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 70. fundur - 13.12.2019

Tekin fyrir drög að aðgerðaáætlun í málefnum loftgæða, snjómoksturs og hálkuvarna hjá Akureyrarbæ.

Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpmála og Hrafn Svavarsson forstöðumaður umhverfismiðstöðvar sátu fundinn undir þessum lið.
Umhverfis- og mannvirkjaráð vill koma á framfæri þökkum til starfsmanna Akureyrarbæjar, viðbragðsaðila, verktaka og annarra fyrir frábær störf í því erfiða ástandi sem skapaðist í sveitarfélaginu í því óveðri sem gekk yfir landið nú í vikunni.