Tekin fyrir bókun 211. fundar heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra sem haldinn var 6. nóvember 2019 varðandi svifryk sem er svohljóðandi:
"Svifryksvandi í Akureyrarbæ er lýðheilsuvandamál sem kallar á ákveðnar úrbætur að hálfu Akureyrarbæjar (gatnakerfi bæjarins) og Vegagerðar ríkisins (þjóðvegir). Heilbrigðisnefnd mælist til þess að Akureyrarbær og Vegagerð ríkisins noti eingöngu salt/saltpækil til hálkuvarna á Akureyri veturinn 2019 til 2020 og meti árangur af þessari breytingu á verklagi m.t.t. svifryks í Akureyrarbæ að loknum vetri.
Jafnframt verði gert átak í því að efla þrif (sópun og smúlun) á götum bæjarins og að notaður verði sjór og eftir atvikum magnesíumklóríð til rykbindingar á götum bæjarins. Gert verði átak í því að fyrirbyggja að óhreinindi berist á götur bæjarins með vörubílum og vinnuvélum af byggingar- og athafnasvæðum (krafa um vandað verklag og að verktakar þrífi upp eftir sig ef óhreinindi berast út á götur).
Þá er minnt á mikilvægi þess að koma á framfæri fræðslu og upplýsingu til bæjarbúa um mikilvægi þess að velja naglalaus vetrardekk frekar en nagladekk m.t.t. svifryks og lýðheilsu.
Að lokum er gerð tillaga um að Akureyrarbær og Akureyrarhöfn fjárfesti í færanlegum svifryksmæli sem verði notaður gagngert til þess að fylgjast með svifryki víðsvegar í bænum og einnig vegna mengunar frá skemmtiferðaskipum í Akureyrarhöfn (færanlegur mælir til viðbótar við fasta mælistöð sem er til staðar í miðbænum)."
Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpdeildar, Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfismála og Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra sátu fundinn undir þessum lið.