Brit Bieltvelt framkvæmdastjóri ÖA og Helga Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri ÖA sem sat fundinn undir þessum lið, kynntu stöðuna á Öldrunarheimilum.
Í fjárlögum ársins 2011 kom fram að hjúkrunarrýmum á ÖA yrði fækkað um sex frá 1. janúar 2011, til viðbótar við þriggja rýma fækkun á árinu 2010. Í kjölfar mótmæla bæjaryfirvalda hefur Velferðarráðuneytið ákveðið að draga hluta skerðingarinnar til baka. Samkvæmt tilkynningu ráðuneytis dags. 24. febrúar 2011 verður dregið úr skerðingu um þrjú hjúkrunarrými auk þess sem átta dvalarrýmum verður breytt í fjögur hjúkrunarrými frá 1. mars 2011. Frá þeim tíma hafa Öldrunarheimili Akureyrar heimild fyrir 168 hjúkrunarrýmum og 20 dvalarrýmum. Samkvæmt þessu fækkar hjúkrunarrýmum á ÖA um tvö frá síðastliðnum árum og dvalarrýmum um átta. Hjúkrunarrýmum á FSA hefur verið fækkað úr tólf í sjö eða um fimm rými frá ársbyrjun 2011. Ræddar voru ýmsar leiðir til að mæta þessum niðurskurði.
Helga Erlingsdóttir vék af fundi.
Bæjarráð felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrar að óska eftir skýrum svörum frá velferðarráðherra um endanlegar fjárveitingar til Öldrunarheimila Akureyrar fyrir næsta fund bæjarráðs 24. febrúar nk.