Niðurstöður viðhorfakönnunar meðal nemenda 2010

Málsnúmer 2010110060

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 25. fundur - 15.11.2010

Trausti Þorsteinsson lektor við HA mætti á fundinn og gerði grein fyrir niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal nemenda í 8.- 10. bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar vorið 2010. Helstu niðurstöður eru þær að: Nemendum í grunnskólum Akureyrar virðist líða vel í skólanum og þeir eru ánægðir með skólann sinn. Hlutfallslega fleiri nemendur í 9. og 10. bekk segjast ánægðir með skólann sinn en nemendur í 8. bekk. Hlutfallslega færri nemendur en fleiri segja hins vegar að það sé gaman í skólanum og að þar sé friður til að læra. Marktæk tengsl eru á milli bekkjar og viðhorfs nemenda til þess hversu gaman er í skólanum og hvort friður sé til að læra. Viðhorf nemenda 10. bekkjar virðist almennt jákvæðara til skólans síns en nemenda í 8. og 9. bekk.
Mestur áhugi meðal nemenda er á íþróttum, verkgreinum og ensku en minnstur áhugi á dönsku og íslensku. Mikill meirihluti nemenda telur sig hafa mikinn metnað til að standa sig vel í námi og að gerðar séu miklar kröfur til þeirra í skólanum. Ef marka má afstöðu nemenda til krafna sem til þeirra eru gerðar virðast þær aukast í elstu bekkjum skólanna.
Niðurstöður benda til að nemendur fái lítt að vera með í ráðum við að skipuleggja eigið nám. Langflestir nemendur telja að þeir fái góða kennslu í sínum skóla og að kennarar hafi metnað fyrir þeirra hönd. Tæplega helmingur nemenda segir hins vegar starfið í skólanum fjölbreytt og yfir 40% segir að lítil áhersla sé lögð á samvinnu nemenda í kennslustundum. Mikill meirihluti nemenda segist sjaldan vera í hópastarfi í kennslustundum.
Ef marka má niðurstöður virðast kennarar vera mjög sparir á hrós við nemendur sína svo og nemendur á hvern annan. Foreldrar virðast umbuna börnum sínum með hrósi.
Skýrsluna í heild má nálgast á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is

Skólanefnd þakkar Trausta fyrir kynninguna og felur fræðslustjóra að ræða niðurstöðurnar við skólastjóra með það að markmiði að bregðast við því sem betur má fara.