Niðurstöður viðhorfakönnunar meðal kennara í grunnskólum 2009-2010

Málsnúmer 2010110059

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 25. fundur - 15.11.2010

Trausti Þorsteinsson lektor við HA mætti á fundinn og gerði grein fyrir niðurstöðunum en þær eru helstar að:
Í meginatriðum verður ekki annað séð en að kennarar séu ánægðir með skólann sem sinn vinnustað þrátt fyrir að þeir telji sig ekki eiga mikla hlutdeild í ákvörðunum innan skóla né þeim falin forysta um fagleg mál. Kennarar virðast ánægðir með þær nýjungar sem unnið er að í þeirra skóla, þeir segja tekið af mikilli festu á málum í skólanum og eru ánægðir með faglega stefnu skólastjóra.
Kennarar eru almennt sammála því að nemendum líði vel í skóla sínum og þeir hafi jákvætt viðhorf til skólans. Mikill meirihluti kennara segir að nemendur séu hafðir í forgrunni við allar ákvarðanir í skólanum en hins vegar meta einungis 50% kennara það svo að nemendur hafi mikinn metnað í námi.
Almennt virðast kennarar hafa mjög jákvætt viðhorf til faglegs starfs í skóla sínum. Þeir segja að skólinn leggi mikla áherslu á jákvæð samskipti starfsfólks og nemenda, þeir eru sammála því að kennarar axli sameiginlega ábyrgð gagnvart nemendum og skólinn leggi mikla áherslu á að starfsfólk sýni nemendum gott fordæmi. Kennarar segjast þekkja vel til einstaklingsbundinna námsþarfa allra nemenda sinna og telja að fjölbreyttum kennsluaðferðum sé beitt í þeirra skóla.
Kennurum finnst sérfræðiþjónusta skólanna bregðast seint við óskum um aðstoð eða ráðgjöf. Þar sem kennarar segjast þekkja nokkuð vel hvaða þjónustu megi sækja til skólateymis fjölskyldudeildar, betur en hvað sækja megi til Skólaþróunarsviðs, má ætla að kennarar leiti fremur til fjölskyldudeildar með vandamál en til Skólaþróunarsviðs. Mjög stór hópur kennara leggur ekki mat á þjónustu þessara stofnana en þeir sem það gera gefa henni góða dóma. Milli 80 og 90% segir hana góða, en hafa ber þá í huga að mjög margir taka ekki afstöðu.
Almennt virðast kennarar hafa jákvætt viðhorf til samskipta við foreldra. Eins og í fyrri könnunum segja yfir 80% kennara samstarfið við foreldra ánægjulegt en um leið vilja flestir aukna þátttöku foreldra í skólastarfinu og eru yfir 80% þeirra sem taka afstöðu þeirrar skoðunar að aukin þátttaka foreldra myndi hraða umbótum í skólastarfi.
Skýrsluna í heild má nálgast á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is.

Skólanefnd þakkar Trausta fyrir kynninguna og felur fræðslustjóra að ræða niðurstöðurnar við skólastjóra með það að markmiði að bregðast við því sem betur má fara.