Bæjarstjórn

3442. fundur 16. október 2018 kl. 16:00 - 17:30 Hamrar í Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Dagbjört Elín Pálsdóttir
  • Hlynur Jóhannsson
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Hildur Betty Kristjánsdóttir
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Hildur Betty Kristjánsdóttir L-lista mætti í forföllum Andra Teitssonar.
Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista mætti í forföllum Gunnars Gíslasonar.

Í upphafi fundar leitaði forseti afbrigða til að fá að taka af dagskrá 6. lið í útsendri dagskrá, skýrslu bæjarstjóra, þar sem bæjarstjóri er að sinna vinnu utan bæjarins. Var það samþykkt samhljóða.

1.Starfs- og fjárhagsáætlun frístundaráðs 2019

Málsnúmer 2018080857Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarráðs 4. október sl. var lögð fram tillaga frístundaráðs að gjaldskrá Hlíðarfjalls með gildistíma frá hausti 2018 til hausts 2019. Bæjarráð samþykkti gjaldskrána og vísaði henni til staðfestingar í bæjarstjórn.

Hildur Betty Kristjánsdóttir kynnti tillögu frístundaráðs.

Í umræðum tóku til máls Þórhallur Jónsson, Hlynur Jóhannsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Eva Hrund Einarsdóttir og Hildur Betty Kristjánsdóttir.
Bæjarstjórn staðfestir ákvörðun bæjarráðs með 10 atkvæðum.

Þórhallur Jónsson D-lista sat hjá við afgreiðslu.

2.Endurskoðun Aðalskipulags Akureyrar 2018-2030

Málsnúmer 2018100093Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 10. október 2018:

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal að loknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort að ástæða sé til að endurskoða gildandi aðalskipulag. Skal ákvörðun sveitarstjórnar liggja fyrir innan 12 mánaða frá kosningum og skal niðurstaðan tilkynnt Skipulagsstofnun jafnskjótt og hún liggur fyrir. Í gildi er Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 sem samþykkt var í bæjarstjórn 6. mars 2018 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þann 14. maí 2018.

Skipulagsráð telur að í ljósi þess að nýtt aðalskipulag tók gildi í maí á þessu ári sé ekki ástæða til þess að fara í vinnu við endurskoðun aðalskipulagsins. Er mælt með því að bæjarstjórn feli sviðsstjóra skipulagssviðs að tilkynna Skipulagsstofnun um þessa niðurstöðu.

Ingibjörg Ólöf Isaksen tók til máls og kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Þingvallastræti 40 - fyrirspurn

Málsnúmer 2018100068Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 10. október 2018:

Erindi móttekið 28. september 2018 þar sem Jón Sigurður Þorsteinsson og Semíramis Ana Weando leggja inn fyrirspurn hvort heimild fáist til að byggja við Þingvallastræti 40. Meðfylgjandi er samþykki nágranna, teikning og loftmynd.

Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við að gerð verði breyting á deiliskipulagi sem felur í sér að heimilt verði að stækka hús á lóðinni Þingvallstræti 40 í samræmi við fyrirliggjandi umsókn. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og þar sem fyrir liggur samþykki eigenda aðliggjandi húsa er ekki talin þörf á að grenndarkynna breytinguna sbr. 3. mgr. 44. gr. laganna. Leggur ráðið því til við bæjarstjórn að breyting á deiliskipulagi svæðisins verði samþykkt og að skipulagssviði verði falið að annast gildistöku hennar.

Ingibjörg Ólöf Isaksen tók til máls og kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Margrétarhagi 1 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2018050217Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 10. október 2018:

Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis sem nær til lóðarinnar Margrétarhagi 1. Á fundi skipulagsráðs 29. ágúst sl. var breytingartillagan tekin fyrir að lokinni grenndarkynningu. Sex athugasemdabréf bárust á kynningartíma og var málið afgreitt með þeim hætti að skipulagsráð tók undir innkomnar athugasemdir og hafnaði því að breyta deiliskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi beiðni lóðarhafa. Á fundi bæjarráðs þann 26. september 2018 var samþykkt beiðni umsækjanda um endurupptöku málsins á grundvelli þess að ráðið hafi ekki tekið afstöðu til alls þess sem fyrir lægi í málinu og var málinu vísað til skipulagsráðs til nýrrar ákvörðunar.

Er deiliskipulagsbreytingin því lögð fram að nýju ásamt innkomnum athugasemdum. Til viðbótar er lagt fram bréf umsækjanda dagsett 7. september 2018 ásamt uppdráttum sem sýna þrívíddarmynd af fyrirhuguðu húsi, skuggavarpi og sniði. Einnig er lagt fram bréf Ingólfs Freys Guðmundssonar dagsett 27. september 2018 fyrir hönd umsækjanda þar sem óskað er eftir því að fallið verði frá ákvæði deiliskipulagsbreytingar um að hækka vegghæð úr 7,7m í 8,4m. Þá er lögð fram tillaga sviðsstjóra skipulagssviðs að umsögn um innkomnar athugasemdir.

Orri Kristjánsson S-lista bar upp vanhæfi sitt og var það samþykkt, vék hann af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Í ljósi nýrra gagna í formi skýringaruppdrátta sem sýna snið, útlit og skuggavarp leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að fallið er frá breytingu á skilmálum varðandi hámarks vegghæð á göflum hússins í samræmi við ósk umsækjanda og skipulagssviði falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

Helgi Snæbjarnarson L-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.

Ingibjörg Ólöf Isaksen tók til máls og kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Samgönguáætlanir fyrir árin 2019-2023 og 2019-2033

Málsnúmer 2018100186Vakta málsnúmer

Umræða um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun til fimm ára, 2019-2023 og um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033.

Hilda Jana Gísladóttir tók til máls og fór yfir helstu þætti áætlananna sem snúa að Akureyrarbæ og ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Í umræðum tóku til máls Þórhallur Jónsson, Sóley Björk Stefánsdóttir, Eva Hrund Einarsdóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Þórhallur Jónsson (í annað sinn) og Halla Björk Reynisdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi ályktun með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að í fimm ára samgönguáætlun sé ekki gert ráð fyrir fjármögnun uppbyggingar Akureyrarflugvallar. Það samræmist hvorki byggðastefnu stjórnvalda né umræðu um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið. Þá hvetur bæjarstjórn Akureyrar ríkisstjórnina til að ljúka við löngu tímabæra eigendastefnu Isavia, ekki síðar en um áramótin 2018/2019.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Bæjarráð 4. október 2018
Frístundaráð 28. september og 3. október 2018
Fræðsluráð 1. október 2018
Skipulagsráð 10. október 2018
Stjórn Akureyrarstofu 4. október 2018
Umhverfis- og mannvirkjaráð 1. og 2. október 2018
Velferðarráð 3. október 2018

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 17:30.