Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar samþykkt í bæjarstjórn

Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2022, auk þriggja ára áætlunar 2023-2025, var tekin til síðari umræðu og samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær.

Áætluð rekstrarniðurstaða samstæðunnar (A- og B- hluta) árið 2022 er neikvæð um 624 milljónir króna. Gert er ráð fyrir batnandi afkomu til ársins 2025 og að tekjur hækki meira en gjöld.

Fjárhagsáætlun 2022 gerir ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu og fasteignaskattsprósentu, en almennt er gert ráð fyrir 4% hækkunum á gjaldskrám í samræmi við verðlagsbreytingar.

Líkt og undanfarin ár eru útgjöld til fræðslumála fyrirferðarmest þegar kemur að forgangsröðun fjármuna og því næst er félagsþjónusta. Um 66% af útgjöldum aðalsjóðs á næsta ári renna til þessara tveggja málaflokka.

Heildartekjur A-hluta á hvern íbúa eru áætlaðar 1.149 þúsund kr. árið 2022 sem er aukning um 7% frá áætlun þessa árs. Skatttekjur eru stærsti hluti tekna sveitarfélagsins.

Nokkrar breytingar/áherslur 2022:

  • Börnum boðið leikskólapláss allt niður í 12 mánaða aldur. Gjaldskrá hækkar um 4,5% en 10% álag á leikskólagjöld vegna barna yngri en 24 mánaða er fellt niður.
  • Stjórnsýslubreytingar og umbótaverkefni koma til framkvæmda sem eru til þess fallin að draga úr kostnaði og bæta þjónustu við íbúa.
  • Fyrsti hluti aðgerðaáætlunar í málefnum eldri borgara kemur til framkvæmda.
  • Breytingar á þjónustu Glerárlaugar sem hafa í för með sér að dregið er úr opnunartíma fyrir almenning. Breytingin hefur ekki áhrif á skipulagt starf í lauginni. 
  • Framkvæmdir fyrir 3.362 m.kr. í samstæðunni á næsta ári og 14.967 m.kr. á áætlunartímabilinu.
  • Uppbygging nýrra íbúðasvæða sem hefur í för með sér mikla gatna- og stígagerð.

Fræðslumál í hnotskurn:
Rekstur leik- og grunnskóla, tónlistarskóla og annarrar fræðslustarfsemi stendur fyrir um 43% af útjöldum aðalsjóðs. Miklar framkvæmdir hafa einkennt þennan málafokk að undanförnu, svo sem bygging leikskólans Klappa og allsherjar endurbætur á grunnskólum sem áfram er unnið að. Ný mannvirki og bætt þjónustu hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað, en samkvæmt fjárhagsáætlun aukast útgjöld til fræðslumála um 26% á tímabilinu 2018-2022.

Félagsþjónusta í stuttu máli:
Þjónusta við fatlað fólk, börn og unglinga, aldraða og ýmis önnur velferðarþjónusta stendur fyrir um 23% af rekstrarútgjöldum. Akureyrarbær hefur lagt áherslu á að tryggja fötluðu fólki sjálfstæða búsetu í þjónustukjörnum í stað herbergjasambýla. Þjónusta við börn og unglinga hefur aukist mikið undanfarin ár og sem og notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) og er áætlað að sú þróun haldi áfram.

Æskulýðs- og íþróttamál í aðalatriðum:
Æskulýðs- og íþróttamál standa fyrir 11% af útgjöldum aðalsjóðs, en þar undir fellur m.a. rekstur íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar, styrkir til íþróttafélaga og frístundastyrkir, rekstur félagsmiðstöðva, forvarnastarfsemi og vinnuskólinn.

Fjárhagsáætlun myndar ramma um þá starfsemi og þau verkefni sem sveitarfélagið sinnir og hyggst leggja áherslu á til næstu ára. Íbúar eru hvattir til að kynna sér áætlunina:

Myndræn greinargerð með helstu upplýsingum - einnig aðgengileg á pdf formi hér
Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar og framkvæmdayfirlit 2022-2025 í heild
Upptaka frá kynningarfundi sem var haldinn 7. desember sl.
Fréttatilkynning bæjarstjórnar frá 23. nóvember, send út í tengslum við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan