Iðavöllur er meðal þeirra leikskóla Akureyrarbæjar sem taka á móti 12 mánaða börnum í haust. Ljósmynd: Bjarki Brynjólfsson.
Í haust verða innrituð 12 mánaða gömul börn í fimm leikskóla Akureyrarbæjar. Er þetta í fyrsta sinn sem svo ung börn eru almennt innrituð í leikskóla bæjarins.
Stærsta ástæða þessara breytinga á þjónustu við börn og foreldra er tilkoma Klappa, nýs leikskóla við Glerárskóla. Framkvæmdir hafa staðið í rúmt ár og er frágangur á lokametrunum. Skólastarf hefst um mánaðamótin. Klappir er sjö deilda leikskóli og í vetur verða innrituð börn fædd 2019 og 2020 á fimm deildum leikskólans. Alls verða rúmlega 120 börn í leikskólanum í vetur. Öll aðstaða er eins og best verður á kosið, innan- og utandyra. Leikskólinn er á tveimur hæðum, með sameiginlegu miðjurými í gegnum allan skólann og tengingu við Glerárskóla og íþróttahús.
Aðrir leikskólar sem taka við yngsta aldurshópi leikskólabarna, 12-14 mánaða, eru Árholt/Tröllaborgir, Iðavöllur, Hulduheimar Sel og Pálmholt/Lundarsel. Aðstæður hvers skóla, einkum húsnæðiskostur, ráða innritunaraldri. Í fyrra voru börn fædd í maí 2019 og fyrr innrituð í leikskóla bæjarins, við 15 mánaða aldur. Því er um þónokkra breytingu að ræða sem felur jafnframt í sér brú milli fæðingarorlofs og leikskóla, en fæðingarorlof var lengt í 12 mánuði um síðustu áramót.
Gert er ráð fyrir að allir leikskólar verði fullsetnir nú í septembermánuði og er því ekki reiknað með að hægt verði að innrita fleiri börn í haust eða vetur. Algengast er að pláss losni að hausti þegar elsti árgangur leikskóla hættir vegna grunnskólagöngu.
Alls verða um 970 börn í leikskólum bæjarins í vetur. Þar af eru 270 börn að hefja sína leikskólagöngu í haust. Um 40 börn eru í yngsta aldurshópnum, 12-14 mánaða.