Hannes Sigurðsson. Mynd: Völundur Jónsson.
Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri, hefur sagt starfi sínu lausu. Hann mun fylgja sýningum þessa
árs til enda, ljúka skipulagningu fyrir næsta sýningarár og ritstýra dagskrárbæklingi Sjónlistmiðstöðvarinnar fyrir
næsta ár. Hann mun jafnframt verða sýningarstjóri sumarsýningar miðstöðvarinnar 2014 þótt hann muni þá hafa
látið af störfum sem forstöðumaður. Samkomulag náðist um framlengdan uppsagnarfrest Hannesar svo starf Sjónlistamiðstöðvarinnar mætti
verða óslitið þar til nýr forstöðumaður tekur til starfa.
Sjónlistamiðstöðin fór af stað af miklum krafti á síðasta ári og vakti mikla athygli fyrir sýningar sínar og
uppátæki. Á yfirstandandi ári hefur mikil vinna verið lögð í að koma jafnvægi á rekstur miðstöðvarinnar og stendur hann
nú mjög vel. Það að samkomulag náðist um að lengja uppsagnarfrestinn gerir stjórnendum málaflokksins kleift að skoða skipulag
Sjónlistamiðstöðvarinnar í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er og endurskoða mögulega fyrirkomulagið áður en auglýst verður
eftir nýjum forstöðumanni. Hvort tveggja tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma.
Hannes hefur stýrt Sjónlistamiðstöðinni frá því hún var sett á fót í ársbyrjun 2012 en hann var áður
forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri og hefur samtals starfað í Listagilinu í rúm 14 ár. Undir hans stjórn hafa verið settar upp
margar af athyglisverðustu sýningum sem sést hafa á Íslandi. Meðal frægra alþjóðlegra listamanna sem hann hefur kynnt má nefna
Matthew Barney, Boyle fjölskylduna, Per Kirkeby, Spencer Tunick, Rosemarie Trockel, Andres Serrano, Henri Cartier-Bresson, Bill Viola, Fang Lijun, Yue Minjun, Zhang Xiaogang, Alberto Giacometti,
Henry More, Carl Andre, Richard Long, Donald Judd, Rembrandt og Goya. Hann hefur sýnt flesta af þekktustu listamönnum þjóðarinnar, lífs og liðna,
jafnframt því að kynna listamenn frá Akureyri og nágrenni, bæði með einkasýningum og stórum þema- eða samsýningum sem fylgt
var út hlaði með vönduðum bókum og skrám. Hannes stýrði einnig ýmsum óvanalegum sýningum, eins og t.d. Losta 2000, Hitler og
hommarnir, 100 milljónir í reiðufé og Bæ-bæ Ísland, auk þess að kynna myndlist frá fjarlægum heimshlutum á borð við
Rússland, Indland og Jórdaníu. Þá er Hannes höfundur og forsprakki Íslensku sjónlistaverðlaunanna sem sett voru á fót
árið 2006. Áður en Hannes tók við Listasafninu á Akureyri árið 1999 hafði hann starfað í áratug sem
sjálfstæður sýningarstjóri, sá fyrsti á Íslandi, framkvæmt fjölda stórra verkefna og sýnt marga
alþjóðlega listamenn, t.a.m. Komar og Melamid, Jenny Holzer, Carolee Schneemann, Sally Mann, Orlan, Louise Bourgeois, Peter Halley og Joel-Peter Witkin. Hannes hlaut MA
gráðu í listfræði frá UC Berkeley árið 1990, eftir að hafa lokið námi í listfræði við University College London,
útskrifast úr málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og tekið burtfarapróf í flautuleik frá Tónlistaskóla
Reykjavíkur.