Greitt fyrir góða þjónustu

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Ákveðið hefur verið að frá og með næstu mánaðamótum verði tekið gjald fyrir notkun á gönguskíðabrautinni í Hlíðarfjalli. Gönguskíðabrautinni er mjög vel við haldið þegar snjór er í fjallinu. Hún er troðin með fullkomnum snjótroðurum þegar þurfa þykir og er flóðlýst þegar dimma tekur.

Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir að þessi ráðstöfun sé óhjákvæmileg í ljósi þess kostnaðar sem til fellur: „Það kostar um sex milljónir króna á ári að viðhalda gönguskíðabrautinni og með þessu mjög svo hóflega gjaldi teljum við okkur geta náð inn fyrir um helmingnum af því. Það er ekki síður kostnaðarsamt að viðhalda gönguskíðabrautum en öðrum skíðabrautum og okkur er því varla stætt á því að innheimta gjald í skíðalyfturnar en ekki í gönguskíðabrautirnar sem þurfa einnig sitt viðhald, troðslu og lýsingu ásamt fleiru. Þessi breyting getur hitt einhverja óþægilega fyrir en rétt er að benda á að með þessu er þjónustan líka fest í sessi sem er mikilvægt. Fólk er einfaldlega að greiða fyrir góða þjónustu.“

Einn dagur í brautinni mun kosta 500 kr. og vetrarkort 10.000 kr. Sem áður segir hefst gjaldtakan 1. febrúar og verður nánar kynnt á heimasíðu Hlíðarfjalls, www.hlidarfjall.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan