Mynd: Minjasafnið á Akureyri.
Þér er boðið í 50 ára afmæli Minjasafnsins á Akureyri, garðveislu og afmælisboð á
laugardag og sunnudag frá kl. 14-16. Því hvernig fagna söfn afmælum? Jú, með sýningum og afmælishátíð! Andi 1962 verður
allsráðandi á Minjasafninu á Akureyri nk. laugardag þegar safnið fagnar 50 ára afmæli sínu. Hinn aldargamli garður safnsins fyllist
tónum og fiðringur færist í fæturna. Lúðrasveit Tónlistarskólans á Akureyri blæs af krafti þangað til
Danshljómsveit Snorra Guðvarðar stígur á svið og framkallar tóna frá 1962. Dansað verður um allan garð og verða hinir fótafimu
dansarar Vefarans þar í fararbroddi en öllum er að sjálfsögðu frjálst að stíga sporið í garðinum.
Ef hitinn og dansæðið verður til að draga máttinn úr mönnum þá verða veitingar í anda
Akureyrar 1962 á boðstólum. Valash, Conga og Bragakaffið renna ljúflega í gesti og gangandi. Til að mörk nútíðar og fortíðar
verði enn óskýrari verða bílar frá Fornbíladeild Bílaklúbbs Akureyrar til sýnis á flötinni fyrir neðan safnið auk
þess sem starfsfólk og þátttakendur í afmælinu verða klædd í samræmi við tískuna 1962.
Afmælið heldur áfram á sunnudeginum og verður aldeilis sögulegt. Þá er sannkallað afmælisboð
með tilheyrandi kökuhlaðborði sem 100 ára afmælisbarnið Kristjánsbakarí býður upp á. Heimir Bjarni Ingimarsson fær alla krakka
til að syngja og tralla í garðinum og forvitnilegar persónur skjóta upp kollinum. Ekki það að gestir safnsins séu ekki forvitnilegir en hver hefur
hitt sr. Matthías Jochumsson eða Vilhelmínu Lever, kjarnakonuna sem fyrsta allra kvenna kaus í kosningum? Matthías og Vilhelmína verða í eigin
persónu í Minjasafnsgarðinum. Ekkert er fegurra en söngur karlakórs og tvöfaldur kvartett Karlakórs Akureyrar-Geysis tekur öllu fram. Nema
þá ef fornbílar Bílaklúbbs Akureyrar gætu sungið en Fornbíladeildin verður með bílasýningu og kemur akandi og verða
flauturnar þandar.
Fyrir þá sem vilja taka sér hlé frá garðveislunni er um að gera að bregða sér inn í
safnahúsin og skoða afmælissýningu safnsins "Manstu... Akureyri í myndum". Þar gefur að líta þennan 150 ára gamla bæ frá
ýmsum sjónarhornum á ólíkum tímum. Einnig er hægt að setjast á bíóbekkinn og sjá myndasyrpu frá Kvikmyndasafni
Íslands, Akureyri 1907-1970.
Það verður því sannkölluð afmælishátíð 2. og 3. júní frá kl. 14-16
báða dagana og þér er boðið!