Matarsóun

Sóun matvæla er gríðarlega stórt umhverfisvandamál. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðannMatarsóuna (FAO) áætlar að þriðjungur matvæla (1,3 milljarður tonna) fari til spillis á ári hverju. Á sama tíma fara milljónir svangir að sofa og tugþúsundir barna deyja daglega úr næringarskorti. Framleiðsla matar getur haft mjög neikvæð umhverfisáhrif og þegar við sóum síðan matnum verða umhverfisáhrifin enn meiri. Á Vesturlöndum á stór hluti þessarar sóunar sér stað hjá verslunum og neytendum sjálfum. Breyting á neysluvenjum okkar og rekstri fyrirtækja er því nauðsynleg. Verndun umhverfis, aukning í sjálfbærni í matvælaframleiðslu, minni losun gróðurhúsalofttegunda og fjárhagssparnaður eru allt mikilvægir ávinningar sem fást með minni matarsóun. 

Til að draga úr matarsóun hefur Akureyrarbær farið ýmsar leiðir. Stórt skref var tekið þegar Molta var stofnuð árið 2007. Að félaginu komu öll sveitarfélög í Eyjafirði sem eigendur Flokkunar ehf., allir stærstu matvælaframleiðendur á Eyjafjarðarsvæðinu og fleiri aðilar. Akureyrarbær útvegar heimilum bæjarins 150 maíspoka á ári þeim að kostnaðarlausu fyrir lífrænan úrgang. 100 pokum er dreift einu sinni á ári í byrjun mars og geta íbúar sótt 50 poka til viðbótar til Terra (áður Gámaþjónusta Norðurlands) án endurgjalds einu sinni á ári. Pokarnir fara síðan í lítil græn box sem eru sérstaklega fyrir lífrænan úrgang sem sveitarfélagið hefur afhent hverju heimili. Í byrjun árs 2016 var Græna trektin jafnframt kynnt á Akureyri. Með tilkomu hennar var hægt að koma notaðri olíu og fitu til Orkeyjar sem býr til lífdísel úr henni sem aftur nýtist í samgöngum eða í jarðgerð hjá Moltu.

Sjá meira um matarsóun, hugmyndir til að minnka hana og aðgerðir gegn matarsóun á Íslandi