Stjórnsýslunefnd

7. fundur 16. desember 2011 kl. 08:00 - 10:00 Fundarsalur á 2. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Þór Gunnarsson formaður
  • Geir Kristinn Aðalsteinsson
  • Andrea Sigrún Hjálmsdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Ólafur Jónsson
  • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
  • Dagný Magnea Harðardóttir skrifstofustjóri ráðhúss
  • Gunnar Frímannsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Gunnar Frímannsson verkefnastjóri
Dagskrá

1.Breytingar á nefndum og deildum

Málsnúmer 2011060015Vakta málsnúmer

Þann 22. júní 2011 óskaði stjórnsýslunefnd eftir að meirihluti bæjarstjórnar tæki afstöðu til tillagna frá hópi embættismanna um breytingar á fastanefndum bæjarins og legði fram tillögur sínar um breytingar á stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Meirihluti L-listans hefur nú gert þá tillögu að íþróttamál verði færð undir samfélags- og mannréttindadeild og að starfi framkvæmdastjóra íþróttadeildar verði breytt í starf forstöðumanns íþróttamála.
Bæjarstjóri og formaður stjórnsýslunefndar gerðu grein fyrir tillögunni sem hefur hlotið stuðning í íþróttaráði og samfélags- og mannréttindaráði.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir fulltrúi V-lista í stjórnsýslunefnd leggur til að samhliða breytingum á starfi íþróttafulltrúa verði ráðinn að nýju jafnréttisfulltrúi Akureyrarbæjar.
Akureyri hefur löngum verið í fararbroddi hvað jafnréttismál varðar en þróun í samfélaginu gefur vísbendingar um stöðnun og jafnvel bakslag í jafnrétti kynjanna. Af því má sjá að nauðsynlegt er að efla áherslu á jafnréttisstarf í bæjarfélaginu. Það er ljóst að breytingar á fyrirkomulagi starfs íþróttafulltrúa Akureyrarbæjar og færsla þessa stóra málaflokks yfir til samfélags- og mannréttindadeildar hefur í för með sér verulega aukin verkefni fyrir framkvæmdastjóra deildarinnar. Þessi sami framkvæmdastjóri hefur jafnframt sinnt hlutverki jafnréttisráðgjafa og einsýnt er að með fyrrnefndum breytingum verður veruleg skerðing á þeim tíma sem framkvæmdastjóri deildarinnar hefur til að sinna hlutverki sínu sem jafnréttisfulltrúi. Með því að ráða jafnréttisfulltrúa sýna bæjaryfirvöld í verki vilja sinn til þess að vinna af einurð að jafnrétti kynjanna á þeim stóra vinnustað sem Akureyrarbær er, sem og í bæjarfélaginu öllu.

Stjórnsýslunefnd samþykkir fyrir sitt leyti flutning íþróttamála til samfélags- og mannréttindadeildar og vísar þessari breytingu á skipuriti sveitarfélagsins til bæjarstjórnar.

Stjórnsýslunefnd vísar tillögu Andreu til umsagnar samfélags- og mannréttindaráðs.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.  

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri vék af fundi kl. 08:50.
Geir Kr. Aðalsteinsson L-lista vék af fundi kl. 08:55.

2.Fræðslunefnd - fulltrúi starfsmanna á tækni- og umhverfissviði

Málsnúmer 2011100078Vakta málsnúmer

Stjórnsýslunefnd hefur borist erindi frá Leifi Þorsteinssyni þar sem hann óskar eftir að hætta setu í fræðslunefnd sem fulltrúi sérmenntaðra starfsmanna á tækni- og umhverfissviði vegna ákvörðunar bæjarráðs um að leggja ekki námsleyfasjóði sérmenntaðra starfsmanna til fjármagn á árinu 2012.

Stjórnsýslunefnd tilnefnir Tómas Björn Hauksson sem aðalmann í fræðslunefnd í stað Leifs Þorsteinssonar og Ólaf Jakobsson sem varamann.

3.Hæfi pólitískra fulltrúa og stjórnenda

Málsnúmer 2011100053Vakta málsnúmer

Bjarni Sigurðsson Stekkjartúni 8, mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 13. október 2011.
Bæjarráð vísaði erindi hans til stjórnsýslunefndar en hann óskaði eftir því að kannað verði hæfi Ólafs Jónssonar bæjarfulltrúa D-lista til að taka ákvarðanir varðandi Dalsbraut í bæjarstjórn vegna hans eigin hagsmuna og fyrri aðkomu hans að málinu i skipulagsnefnd.
Einnig óskaði Bjarni eftir að kannað verði umboð og hæfi Margrétar Ríkarðsdóttur forstöðukonu Hæfingarstöðvar til að ræða málið á opinberum vettvangi en viðtal við hana hafði skömmu áður birst í Akureyrarblaðinu.
Loks óskaði Bjarni eftir að hæfi Jóhannesar Árnasonar nefndarmanns í skipulagsnefnd kjörtímabilið 2006-2010 yrði kannað á sömu forsendum.
Formaður stjórnsýslunefndar hefur leitað til Bjarna eftir frekari gögnum í málinu auk þess sem bæjarlögmanni hefur verið falið að leggja fram álitsgerð um málið.

Bjarni hefur dregið erindi sitt til baka í ljósi síðasta bæjarstjórnarfundar þar sem meirihluti bæjarstjórnar komst að þeirri niðurstöðu að Ólafur Jónsson væri vanhæfur til að greiða atkvæði um Dalsbraut. Stjórnsýslunefnd telur málinu því lokið.

Ólafur Jónsson D-lista vék af fundi við afgreiðslu málsins.  

4.Hverfisnefndir og hverfisráð - fundargerðir

Málsnúmer 2007020100Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar eftirtaldar fundargerðir:
Fundargerð hverfisráðs Hríseyjar dags. 7. nóvember og 6. desember 2011 og skýrsla formanns dags. 7. desember 2011.
Fundargerð hverfisráðs Grímseyjar dags. 8. nóvember 2011.
Fundargerðir hverfisnefndar Naustahverfis dags. 17. október og 9. nóvember 2011.
Fundargerðir hverfisnefndar Holta- og Hlíðahverfis dags. 1. nóvember og 6. desember 2011.
Fundargerð hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis dags. 21. nóvember 2011.

Fundi slitið - kl. 10:00.