Málsnúmer 2011060015Vakta málsnúmer
Þann 22. júní 2011 óskaði stjórnsýslunefnd eftir að meirihluti bæjarstjórnar tæki afstöðu til tillagna frá hópi embættismanna um breytingar á fastanefndum bæjarins og legði fram tillögur sínar um breytingar á stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Meirihluti L-listans hefur nú gert þá tillögu að íþróttamál verði færð undir samfélags- og mannréttindadeild og að starfi framkvæmdastjóra íþróttadeildar verði breytt í starf forstöðumanns íþróttamála.
Bæjarstjóri og formaður stjórnsýslunefndar gerðu grein fyrir tillögunni sem hefur hlotið stuðning í íþróttaráði og samfélags- og mannréttindaráði.
Andrea Sigrún Hjálmsdóttir fulltrúi V-lista í stjórnsýslunefnd leggur til að samhliða breytingum á starfi íþróttafulltrúa verði ráðinn að nýju jafnréttisfulltrúi Akureyrarbæjar.
Akureyri hefur löngum verið í fararbroddi hvað jafnréttismál varðar en þróun í samfélaginu gefur vísbendingar um stöðnun og jafnvel bakslag í jafnrétti kynjanna. Af því má sjá að nauðsynlegt er að efla áherslu á jafnréttisstarf í bæjarfélaginu. Það er ljóst að breytingar á fyrirkomulagi starfs íþróttafulltrúa Akureyrarbæjar og færsla þessa stóra málaflokks yfir til samfélags- og mannréttindadeildar hefur í för með sér verulega aukin verkefni fyrir framkvæmdastjóra deildarinnar. Þessi sami framkvæmdastjóri hefur jafnframt sinnt hlutverki jafnréttisráðgjafa og einsýnt er að með fyrrnefndum breytingum verður veruleg skerðing á þeim tíma sem framkvæmdastjóri deildarinnar hefur til að sinna hlutverki sínu sem jafnréttisfulltrúi. Með því að ráða jafnréttisfulltrúa sýna bæjaryfirvöld í verki vilja sinn til þess að vinna af einurð að jafnrétti kynjanna á þeim stóra vinnustað sem Akureyrarbær er, sem og í bæjarfélaginu öllu.
Stjórnsýslunefnd samþykkir fyrir sitt leyti flutning íþróttamála til samfélags- og mannréttindadeildar og vísar þessari breytingu á skipuriti sveitarfélagsins til bæjarstjórnar.
Stjórnsýslunefnd vísar tillögu Andreu til umsagnar samfélags- og mannréttindaráðs.
Andrea Sigrún Hjálmsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.