Málsnúmer SN110012Vakta málsnúmer
Tillaga að deiliskipulagsbreytingu fyrir norðurhluta miðbæjar Akureyrar ásamt húsakönnun, var auglýst 9. mars með athugasemdarfresti til 20. apríl 2011. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaðinu og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 1. hæð og á heimasíðu Akureyrarkaupstaðar: www.akureyri.is undir: Stjórnkerfið / Skipulags- og byggingarmál / Auglýstar skipulagstillögur.
Þann 17. febrúar 2011 var haldinn íbúafundur og fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting kynnt.
Í viðtalstíma bæjarfulltrúa þann 3. mars 2011 komu fram tvær athugasemdir (sjá mál 2011020151).
1) Frímann Jónsson, er óánægður með að ÁTVR skuli halda rekstri áfram á þessum stað.
2) Jón Ólafsson, hefur efasemdir um að rétt leið sé farin.
Umsögn barst frá Fornleifavernd dags. 8. apríl 2011.
Engin athugasemd er gerð.
Fjórar athugasemdir bárust á auglýstum athugasemdatíma:
1)Elín V. Bjarnadóttir og Derek Vaughan dags. 14. apríl 2011.
Þau eru mótfallin breytingum á lóðamörkum og frekari útbreiðslu ÁTVR á svæðinu. Mótmælt er að leyfilegt verði að byggja 7m háa byggingu svo nálægt lóðarmörkum Laxagötu 3.
2) JP lögmenn f.h. 17 eigenda og íbúa á skipulagssvæðinu, dags. 19. apríl 2011.
a) Skipulagslýsing var ekki gerð og kynnt íbúum.
b) Ákvörðun um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Hólabraut 16 var kærð og felld úr gildi. Með þessari breytingu á skipulagi er nýtingarhlutfall ekki aukið, heldur eru lóðir sameinaðar til að gera þetta kleift. Með þessu er sveitastjórn að misfara með skipulagsvald og um er að ræða "skipulagssniðgöngu".
c) Vísað er í athugasemdir í úrskurði úrskurðarnefndarinnar.
d) Í gildandi skipulagi segir að ekki séu ráðgerðar frekari nýbyggingar og komi til endurskoðunar verði það gert í samhengi við reit nr. 17. Ekki er skilgreint hvaða forsendur liggja að baki því að breyta skipulagi. Ef ætlunin er að breyta skipulagi þarf að taka til endurskoðunar bæði reit 17 og 18.
e) Tillagan felur í sér mismunun á nýtingarmöguleikum.
f) Ekki hefur verið gerð könnun á áhrifum breytingarinnar á umferð og bílastæðaþörf.
g) Um er að ræða verulegt inngrip í réttindi íbúa sem hefur veruleg neikvæð áhrif á verðmæti fasteigna þeirra.
Gerð er sú krafa að tillögunni verði hafnað. Áskilinn er réttur til að tefla fram frekari sjónarmiðum á síðari stigum.
3) Þórkatla Sigurbjörnsdóttir, Laxagötu 3a, dags. 17. apríl 2011.
a) Mótmælir að byggingarreitur við Hólabraut 16 sem liggur að lóðamörkum hennar sé stækkaður þar sem fyrirhuguð viðbygging muni skerða sólarljós, birtu og útsýni á lóð, auka snjósöfnun og vind.
b) Ákvæði um fjarlægð frá lóðamörkum og bil milli húsa skv. byggingarreglugerð eru ekki virt. Aukin eldhætta þar sem bil milli húsa verður aðeins um 5-6 metrar. Ekki er talað um aðgengi slökkvibifreiða eða brunahættu í greinargerð.
c) Akstur þungra vörubifreiða verður í 3-4 metra fjarlægð frá svefnherbergjum og öðrum vistarverum í húseign hennar sem er með öllu óásættanlegt. Útakstursleið er hættuleg fyrir gangandi vegfarendur vegna blindhorns við lóðamörkin.
d) Tillagan tekur hagsmuni eins aðila fram yfir hagsmuni íbúa. Óásættanlegt er að hagsmunir verslunar séu teknir fram yfir hagsmuni íbúa. Stækkun núverandi húsnæðis að Hólabraut 16 og sameinaðar lóðir mun skerða lífsskilyrði bæði utan og innandyra í fasteign hennar og rýra verðgildi.
4) Brynhildur Ólöf Frímannsdóttir og Guðjón Hreinn Hauksson, dags. 20. apríl 2011.
a) Mótmæla áframhaldandi veru ÁTVR á þessum stað án þess að til komi önnur verslun í bænum til þess að dreifa álagi. Bílastæði anna ekki þörf viðskiptavina sem gerir íbúum erfitt með að komast til og frá húsum sínum.
b) Mótmæla breytingu Hólabrautar í botnlangagötu sem býður uppá endalausar umferðarstíflur.
c) Mótmæla tillögunni þar sem einungis er verið að gera ÁTVR mögulegt að byggja við verslunina. Verðgildi annarra eigna skerðast. Viðbygging mun auka umsvif ÁTVR sem leiðir til meiri umferðar við verslunina.
d)Aðgangur neyðarbíla skerðist verulega á álagstímum.
Edward H. Huijbens (VG) óskaði bókað: Breyting á deiliskipulagi í norðurhluta miðbæjar (Hólabraut - Laxagata) hefur undið hressilega uppá sig eftir áramót og er nú svo komið að meirihluti íbúa á svæðinu er kominn með lögfræðistofu í málið. Að mati fulltrúa VG er þessi þróun mála endurspeglun stefnuleysis skipulagsnefndar, þar sem hún reynir frekar að sigla á milli skers og báru í álitamálum á einstökum deiliskipulagsreitum í stað þess að leggja fram heildarsýn á skipulagsmál í miðbæ Akureyrar. Slík heildarsýn er til í miðbæjarskipulagi sem lagt var fram á síðasta ári og væri nær að tekið væri á álitamálum þar innan í viðleitni að skapa heildarlausnir fyrir miðbæinn allan. Fulltrúi VG kallar eftir því að þegar horft sé til lausna á einum deiliskipulagsreit sé horft til áhrifa þeirra á stærra svæði, sem og að horft sé til þess hvernig heildarlausnir fyrir svæði eins og miðbæinn mögulega leysa úr ýmsum álitamálum sem upp geta komið á einstökum deiliskipulagsreitum.
Frestað.