Strætó - leiðakerfi

Málsnúmer 2023060064

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 142. fundur - 04.07.2023

Lagt fram minnisblað dagsett 15. júní 2023 varðandi endurskoðun leiðakerfis Strætisvagna Akureyrar.

Dóra Sif Sigtryggsdóttir forstöðumaður rekstrardeildar og umhverfismiðstöðvar sat fundinn undir þessum lið.
Meirihluti umhverfis- og mannvirkjaráðs samþykkir að marka þá stefnu að reka áfram á Akureyri öfluga og gjaldfrjálsa þjónustu strætisvagna, á grundvelli núverandi leiðakerfis. Ekki verður farið í innleiðingu á nýju leiðakerfi samanber ákvörðun sem tekin var í júní 2021 og var svo frestað fram í ágúst 2022. Fyrir því eru nokkrar veigamiklar ástæður, svo sem: 1. Stofnkostnaður við innviði og fjölgun vagna í nýju kerfi er um 350 mkr. umfram það sem þarf í núverandi leiðakerfi. 2. Árlegur rekstrarkostnaður í nýju leiðakerfi er talinn verða um 50-60 mkr. hærri en þar að auki eru vísbendingar um að kostnaður við mönnun vakta í nýju kerfi sé vanáætlaður. 3. Talning farþega í vögnum undanfarna mánuði bendir til að nýting fari batnandi, sem er ánægjuefni.



Stefnt er að flutningi jöfnunarstöðvar að Glerártorgi á næstu 1-2 árum. Til að endurnýja vagnaflotann verði keyptir tveir rafknúnir strætisvagnar á næstu 2-3 árum og byggðir upp innviðir fyrir hleðslu þeirra. Mögulega þarf að kaupa í millitíðinni annan notaðan díselvagn til að brúa bilið. Ekki er nægilegt framboð á metani í landinu til að fjölga slíkum vögnum. Núverandi leiðakerfi verður lagað að stækkandi byggð svo sem í Móahverfi og Holtahverfi og einnig lagað að breyttum þörfum svo sem með auknum akstri við Sunnuhlíð, vegna nýrrar heislugæslustöðvar. Áfram verða kannaðir möguleikar á að flétta frístundaakstur barna inn í reglubundinn akstur strætisvagna eftir hádegi á virkum dögum. Jafnframt verði fylgst með þróun í almenningssamgöngum s.s. snjall- og deilisamgöngum.


Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 146. fundur - 19.09.2023

Lagt fram minnisblað dagsett 15. september 2023 varðandi kaup á nýjum strætisvagni.

Dóra Sif Sigtryggsdóttir forstöðumaður rekstrardeildar og umhverfismiðstöðvar sat fundinn undir þessum lið.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir fyrir sitt leyti og vísar til bæjarráðs og fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2024 kaupum á nýjum dísilknúnum strætisvagni að upphæð kr. 37 milljónir. Vagninn er til afhendingar í janúar 2024 og leysir úr brýnni þörf fyrir endurnýjun vegna hárrar bilanatíðni eldri vagna.


Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista og Óskar Ingi Sigurðsson B-lista sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Bæjarráð - 3820. fundur - 28.09.2023

Liður 6 í fundargerð umhverfis- og mannvirkjaráðs dagsettri 19. september 2023:

Lagt fram minnisblað dagsett 15. september 2023 varðandi kaup á nýjum strætisvagni.

Dóra Sif Sigtryggsdóttir forstöðumaður rekstrardeildar og umhverfismiðstöðvar sat fundinn undir þessum lið.

Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir fyrir sitt leyti og vísar til bæjarráðs og fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2024 kaupum á nýjum dísilknúnum strætisvagni að upphæð kr. 37 milljónir. Vagninn er til afhendingar í janúar 2024 og leysir úr brýnni þörf fyrir endurnýjun vegna hárrar bilanatíðni eldri vagna.

Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista og Óskar Ingi Sigurðsson B-lista sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að gert verði ráð fyrir kostnaði vegna kaupanna í fjárhagsáætlun 2024 og vísar málinu til fjárhagsáætlunargerðar.


Sindri Kristjánsson S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista bóka:

Við teljum að talsverð óvissa ríki í málefnum strætó hér í bæ. Því til stuðnings má benda á eftirtalin dæmi. Meirihluti L-lista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks hefur fallið frá ákvörðun um innleiðingu nýs leiðakerfis strætó á Akureyri. Talsverðar líkur eru á því að forsendur fyrir metanvinnslu í bæjarlandinu og nýtingu þess sem orkugjafa strætisvagna og ferliþjónustu séu brostnar. Rætt hefur verið um að umbreyta flotanum yfir í rafmagnsknúna vagna en lítil hreyfing virðist vera í þá átt. Grípa hefur þurft til ákveðinna bráðaaðgerða, líkt og hér eru til umfjöllunar og fela í sér fjárfestingu í tækjum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, til að halda leiðakerfinu gangandi vegna bágs ástands eldri vagna.

Það er algerlega tímabært að huga að heildarstefnumótun vegna reksturs almenningssamgangna í bænum, bæði hvað varðar strætisvagna og ferliþjónustu, en einnig samspil t.d. strætó og annarra lausna líkt og deilibíla og rafhlaupahjóla. Það er öllum í hag að spornað sé við aukinni bílaumferð í bænum af augljósum ástæðum. Öflugar, hágæða almenningssamgöngur eru lausn í þá átt. Við hvetjum meirihlutann í bæjarstjórn Akureyrar að einhenda sér sem allra fyrst í þessa vinnu og erum boðin og búin að koma að verkefninu með samstarf og hagsmuni bæjarbúa allra að leiðarljósi.