Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum (uppbygging innviða) - 144. mál

Málsnúmer 2022100108

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 389. fundur - 12.10.2022

Erindi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis dagsett 3. október sl. þar sem óskað er umsagnar Akureyrarbæjar um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 (uppbygging innviða), 144. mál.

Umsagnarfrestur er veittur til 17. október nk.
Skipulagsráð gagnrýnir þann skamma frest sem veittur er til umsagnar, eða tvær vikur. Um er að ræða stórt stefnumörkunarmál sem varðar uppbyggingu grunn innviða á landinu og þyrfti að leggja fyrir á fleiri nefndarstigum.

Skipulagsráð leggur áherslu á að farið verði eftir þeirri stefnu stjórnvalda að við uppbyggingu og endurnýjun flutningskerfis raforku verði meginkosturinn jarðstrengir og að stefnu stjórnvalda verði fylgt, sem segir að línulagnir í þéttbýli skuli vera lagðar í jörðu.

Umræðu um málið er vísað til bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn - 3517. fundur - 18.10.2022

Liður 11 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. október 2022:

Erindi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis dagsett 3. október sl. þar sem óskað er umsagnar Akureyrarbæjar um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 (uppbygging innviða), 144. mál. Umsagnarfrestur er veittur til 17. október nk.

Skipulagsráð gagnrýnir þann skamma frest sem veittur er til umsagnar, eða tvær vikur. Um er að ræða stórt stefnumörkunarmál sem varðar uppbyggingu grunn innviða á landinu og þyrfti að leggja fyrir á fleiri nefndarstigum. Skipulagsráð leggur áherslu á að farið verði eftir þeirri stefnu stjórnvalda að við uppbyggingu og endurnýjun flutningskerfis raforku verði meginkosturinn jarðstrengir og að stefnu stjórnvalda verði fylgt, sem segir að línulagnir í þéttbýli skuli vera lagðar í jörðu. Umræðu um málið er vísað til bæjarstjórnar.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti málið. Til máls tók Sindri Kristjánsson.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum eftirfarandi bókun:

Skipulagshlutverk sveitarfélaga er einn af hornsteinum sjálfstjórnarréttar þeirra líkt og kveðið er á um í Stjórnarskrá Íslands. Bæjarstjórn tekur undir þá áherslu sem fram kemur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2020 um frumvarpið, en þar segir m.a.:

"Afar mikilvægt að fram komi skýr afstaða af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Alþingis að tillögur um raflínuskipulag og raflínunefnd fela í sé mjög afmarkað frávik frá meginreglum skipulagslaga. Jafnframt þarf að liggja skýrt fyrir að ekki eru fyrirhuguð frekari skref sem gætu falið í sér skerðingu á skipulagshlutverki sveitarfélaga."

Bæjarstjórn leggur jafnframt áherslu á að stefnu stjórnvalda um uppbyggingu og endurnýjun flutningskerfis raforku um að línulagnir í þéttbýli skuli vera lagðar í jörðu verði áfram fylgt í hvívetna og að allar undantekningar frá þeirri meginreglu verði meðhöndlaðar sem meiriháttar frávik í ljósi sérstakra aðstæðna.

Þá hvetur bæjarstjórn til þess að sá hluti frumvarpsins, sem snýr að einföldun lagaumhverfis skipulagsmála og er ekki að finna í því nú ólíkt því þegar frumvarpið hefur áður verið lagt fram, líti dagsins ljós. Telur bæjarstjórn að mikil tækifæri séu til að einfalda málsmeðferð og stjórnsýslu skipulagsmála enn frekar öllum til hagsbóta.