Íþróttafélagið Þór - endurnýjun gólfs í Íþróttahúsi Síðuskóla

Málsnúmer 2021020451

Vakta málsnúmer

Frístundaráð - 91. fundur - 24.02.2021

Erindi frá Jóni Stefáni Jónssyni íþróttafulltrúa Þórs f.h. félagsins þar sem þess er óskað að framkvæmdum við endurnýjun gólfefnis í íþróttahúsi Síðuskóla verði flýtt um eitt ár og farið verði í framkvæmdirnar með það að markmiði að þeim verði lokið í ágúst/september 2021.

Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála og Helgi Rúnar Bragason framkvæmdastjóri ÍBA sátu fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð samþykkir að vísa erindinu til fjárhagsáætlunargerðar 2022.


Anna Hildur Guðmundsdóttir L-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Nú hefur verið skrifað undir viljayfirlýsingu við KA um uppbyggingu á félagssvæði þeirra og hafin umræða við Þór um að fara í deiliskipulagsvinnu á þeirra svæði. Einnig hefur nú borist erindi frá íþróttafulltrúa Þórs þar sem óskað er eftir endurnýjun á gólfefnum í íþróttahúsi Síðuskóla og umræða um endurskipulagningu á nýtingu þess og Íþróttahallarinnar, sem og umræða um mögulegar framkvæmdir á íþróttamiðstöð Glerárskóla.

Anna Hildur Guðmundsdóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir kalla eftir umræðum um framtíðarsýn á nýtingu íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar og spyrja hvort ekki fari best á því að hlutaðeigandi aðilar setjist niður saman og komist að niðurstöðu um hvaða íþróttagreinar henti best fyrir hvert svæði fyrir sig. Það vantar sameiginlega framtíðarsýn sem byggir á hagsmunum allra. Eftir munu standa sterkari félög sem geta þá skipulagt til framtíðar og skýrari sýn fæst á málefni íþróttamála hjá Akureyrarbæ.


Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Sveinn Arnarsson S-lista, Viðar Valdimarsson M-lista og Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Hópur hefur nú þegar verið skipaður af frístundaráði varðandi sameiningar félaga og er hluti af þeirri vinnu að fara yfir nýtingu íþróttamannvirkja.