Fiskeldi í Eyjafirði

Málsnúmer 2020050293

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3475. fundur - 19.05.2020

Umræða um fiskeldi í Eyjafirði.

Andri Teitsson hóf umræðuna og reifaði sögu og stöðu fiskeldis í sjó hér við land, áform sem nú eru til skoðunar hér á landi og mismunandi sjónarmið sem fram hafa komið varðandi slíkt eldi.

Í umræðum tóku til máls Gunnar Gíslason, Sóley Björk Stefánsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Andri Teitsson, Hlynur Jóhannsson, Þórhallur Jónsson, Halla Björk Reynisdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Ásthildur Sturludóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Eva Hrund Einarsdóttir.
Gunnar Gíslason D-lista leggur fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkir að leggja til við sjávarútvegsráðherra að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi líkt og gert hefur verið með Húnaflóa, Skagafjörð, Skjálfanda, Þistilfjörð, Bakkaflóa, Vopnafjörð og Héraðsflóa. Bæjarstjórn telur að með þeirri ákvörðun verði meiri hagsmunum ekki fórnað fyrir minni en hvetur til uppbyggingar á fiskeldi á landi.


Tillagan er borin upp til atkvæða og samþykkt með 7 atkvæðum. Andri Teitsson L-lista, Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista og Ingibjörg Ólöf Isaksen sitja hjá.


Andri Teitsson L-lista, Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista og Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista leggja fram eftirfarandi tillögu:

Laxeldi í sjó hefur byggst hratt upp við Ísland á undanförnum árum og virðist ætla að hasla sér völl sem mikilvæg atvinnugrein. Á hinn bóginn fylgja því ýmsar hættur fyrir villta náttúru og mögulega árekstrar við aðrar atvinnugreinar. Því er nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar og gaumgæfa allar hliðar málsins áður en ákvarðanir verða teknar um fiskeldi í sjó í Eyjafirði. Við teljum það lykilatriði að samráð sé haft við sveitarfélög og íbúa í jafn umfangsmiklu máli og fiskeldi er og teljum ótækt að slíkar ákvarðanir verði teknar í óþökk heimamanna. Í því sambandi skorum við á stjórnvöld að unnið verði strandsvæðaskipulag af öllum firðinum, áður en lengra er haldið, með aðkomu allra sveitarfélaga og engin leyfisveiting verði fyrr en slíkt skipulag liggur fyrir.


Tillagan er borin upp til atkvæða og samþykkt með 4 atkvæðum. Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Gunnar Gíslason D-lista, Heimir Haraldsson S-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Þórhallur Jónsson D-lista sitja hjá.

Bæjarráð - 3688. fundur - 18.06.2020

Erindi dagsett 10. júní 2020 þar sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leitar umsagnar um hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin yrði frá Siglunesi að Bjarnarfjalli.

Þess er óskað að umsögn berist atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eigi síðar en 9. júlí nk. Því er góðfúslega beint til sveitarfélaga á svæðinu að þau eigi viðræður sín á milli við undirbúning umsagna/umsagnar.
Bæjarráð vísar til bókana á fundi bæjarstjórnar 19. maí 2020.