Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (afnám lágmarksútvars), 120. mál

Málsnúmer 2017030146

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3549. fundur - 23.03.2017

Lagt fram til kynningar erindi dagsett 14. mars 2017 frá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (afnám lágmarksútvars), 120. mál 2017.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 30. mars nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is.

Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/146/s/0179.html

Bæjarráð - 3550. fundur - 30.03.2017

Bæjarráð tekur undir svohljóðandi bókun Hveragerðisbæjar frá 16. mars sl.:

"Bæjarráð varar við hugmyndum um afnám lágmarksútsvars og leggst gegn því að frumvarp um slíkt verði að lögum. Samband íslenskra sveitarfélaga og fjöldi sveitarfélaga hafa varað við samþykkt sambærilegs frumvarps sem lagt var fram árið 2014.

Frumvarpið virðist ekki snúast um að efla tekjustofna sveitarfélaga eða innbyrðis skiptingu þeirra heldur snýst það um að ákveðinn hópur launamanna á Íslandi skuli hafa möguleika á að sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum þegar það tekur ákvörðun um búsetu. Á Íslandi sem og á öðrum Norðurlöndum hefur verið sátt um þá afstöðu að allir launþegar skuli greiða ákveðinn hluta af launum til samfélagslegra verkefna, skiptir þá fjárhagsleg staða viðkomandi sveitarfélags ekki máli.

Bæjarráð gerir orð Sambandsins frá 2014 að sínum þar sem segir m.a. "Þar sem fámenn sveitarfélög hafa miklar tekjur af álagningu fasteignaskatts gætu þær aðstæður skapast að þau gætu lækkað álagningarhlutfall útsvars verulega eða jafnvel niður í 0% ef lágmarksútsvar yrði afnumið með öllu. Það myndi skapa möguleika á innlendum skattaparadísum og tilheyrandi "gervibúsetu" með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. íbúar þessara sveitarfélaga myndu því sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum óháð upphæð launa."

Bæjarráð bendir á að ef frumvarp sem þetta ætti að verða að lögum yrði samhliða að gera gagngerar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að komið verði í veg fyrir að sveitarfélög sem í dag hýsa til dæmis stöðvarhús vatnsaflsvirkjana eða stórar ríkisstofnanir gætu hyglað íbúum sínum fjárhagslega á grundvelli tekna sem þessi mannvirki veita.

Bæjarráð telur að afnám lágmarksútsvars brjóti gegn anda þess jafnræðis sem við sem þjóð viljum að ríki í okkar samfélagi og því leggst bæjarráð eindregið gegn samþykkt frumvarpsins."