Lagt fram til kynningar bréf dags. 31. janúar 2011 frá Anitu Aanesen forstjóra Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík með athugasemdum við bókun í 4. lið fundargerðar bæjarráðs 27. janúar sl.
Fulltrúar hverfisráðs Hríseyjar þau Kristinn F. Árnason, Þröstur Jóhannsson og Guðrún Þorbjarnardóttir mættu á fund bæjarráðs og ræddu stöðu heilsugæslumála í Hrísey.
Einnig rætt um félagsþjónustu aldraðra og atvinnumál í eyjunni.
Þau lögðu fram bókun hverfisráðs Hríseyjar dags. 3. febrúar 2011 svohljóðandi:
Hverfisráð Hríseyjar f.h. allra íbúa eyjarinnar mótmælir harðlega þeirri skerðingu sem orðið hefur á læknisþjónustu í eyjunni, að öðru leyti vísar hverfisráð í fyrri ályktun um sama efni dags. 20. desember 2010, en vill bæta við að þar sem það tekur okkur að lágmarki 3 tíma að sækja lækni með tilheyrandi aukakostnaði og vinnutapi til Dalvíkur og í sumum tilfellum þarf samferðarmann með eldra fólki til að sækja læknisþjónustu að þá er þetta veruleg og mikil skerðing við íbúa þessa samfélags. Það væri strax til hins betra ef hægt væri að sinna þessari þjónustu með það í huga að læknir kæmi til Hríseyjar hálfsmánaðarlega og að sjálfsögðu kæmi hann ekki ef ekki væri pantaður tími, þetta er lágmarksþjónusta sem hægt er að bjóða íbúum og tökum við þá þátt í því að taka á okkur þjónustuskerðingu á þessum niðurskurðartímum.
Hverfisráð hvetur hins vegar bæjaryfirvöld til þess að reyna að ná samningi við heilbrigðisráðuneyti hið fyrsta þannig að við Hríseyingar tilheyrum heilsugæslu Akureyrar ef ekki er hægt að semja um mildari skerðingu af hálfu Heilsugæslustöðvar Dalvíkur. Betra og hagkvæmara er fyrir íbúa eyjarinnar að sækja læknisþjónustu til Akureyrar því það er þá hægt að nýta ferðina til að útrétta ofl., þó það sé lengra að fara.
Bæjarráð leggur til að haldinn verði hið fyrsta almennur opinn fundur á Akureyri um fyrirhugaðar breytingar á gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Fundurinn verði haldinn til að upplýsa almenning um málið og til að gefa fólki tækifæri til að leggja fram fyrirspurnir.