Skýrsla bæjarstjóra 2/9-15/9/2020

Öldrunarheimili Akureyrar að Hlíð.
Öldrunarheimili Akureyrar að Hlíð.

Skýrsla bæjarstjóra 2.9.2020-15.9.2020

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 15. september 2020.

Starf okkar síðustu vikurnar hefur einkennst af vinnu við fjárhagsáætlun og einnig árshlutauppgjörið sem lagt var fram til umræðu á þessum fundi. Covid-19 faraldurinn hefur sett stórt strik í efnahagsreikning sveitarfélagsins og ljóst að það tekur okkur næstu misseri að vinna úr þeim óvæntu skakkaföllum sem hann hefur í för með sér.

Síðustu vikur hef ég lagt áherslu á að funda með stærri fyrirtækjum hér í sveitarfélaginu til að ræða stöðuna almennt og horfur næstu mánuðina.

Miðvikudaginn 2. september áttum við fund með Möl og sandi. Þriðjudaginn 8. september var fundað með framkvæmdastjóra Slippsins og stjórnarmanni í fyrirtækinu, og ég hef einnig átt samtal við stjórnendur hjá SS-byggi um horfur í atvinnumálum. Það er augljóslega mjög mikilvægt að við fylgjumst grannt með rekstri fyrirtækja í bænum, ekki síst þegar árar eins og nú er raunin. Ég hef einnig heimsótt Einingu-Iðju til að kynna mér stöðu mála þar.

Áfram hefur verið unnið að undirbúningi flutnings Öldrunarheimila Akureyrar yfir til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og annað stórt verkefni er að ná nýjum menningarsamningi við ríkisvaldið. Þar er afar brýnt að við fáum hlut okkar réttan þó ekki væri nema um hluta þess framlags sem ríkisvaldið leggur til sambærilegra menningarstofnana á höfuðborgarsvæðinu.

Að lokum má geta þess að sunnudaginn 6. september var hinn svokallaði Demantshringur formlega opnaður og þar voru fulltrúar okkar mættir. Demantshringurinn er 250 kílómetra langur hringvegur á Norðausturlandi sem opnar ferðafólki auðveldari aðgang að mörgum helstu náttúruperlum landshlutans.