LÝSA - rokkhátíð samtalsins

LÝSA – rokkhátíð samtalsins fór fram 7.-8. september 2018.

Ávarp í dagskrárblaði LÝSU 2018.

Gestir á LÝSU – rokkhátíð samtalsins, verið velkomin til Akureyrar í lýðræðis- og samtalsveislu!


Hvað er sameiginlegt með félagasamtökum, menntastofnunum, sveitarfélögum, stéttarfélögum, ráðuneytum, fagfélögum, landshlutasamtökum og stjórnmálaflokkum? Jú, allt snýst þetta í grunninn um fólk og samfélagið sem við lifum í. LÝSA rokkhátíð samtalsins er vettvangur þar sem fólk og samfélagið okkar er til umræðu á breiðum grunni og þátttakendurnir erum við öll. Heimurinn og samfélagið tekur hröðum breytingum og til þess að eiga samtal um lýðræði er ekki nóg fyrir yfirvöld og kjörna fulltrúa að bjóða upp á viðtalstíma eða opna fundi í kringum kosningar. Það þarf öflugan, áhugaverðan og ekki síst skemmtilegan vettvang sem hvetur fólk til þátttöku og þannig er LÝSA sem fer nú í annað skipti fram á Akureyri. Hér mæta allir þátttakendur til leiks sem jafningjar – hvort sem þeir koma til að fræða eða fræðast.
Akureyrarbær tekur þátt í LÝSU því við teljum mikilvægt að eiga samtal við bæjarbúa og gesti og það er von mín að þeir örfyrirlestrar og samtal við bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórnarfólk á Norðausturlandi um næstu fjögur ár, sem boðið verður upp á sem hluti af dagskrá LÝSU, muni skila góðu og gagnlegu samtali. Bæjarfélagið leggur upp með að eiga góð samskipti við íbúa m.a. með íbúagátt og rafrænni stjórnssýslu og liggur fyrir að leggja enn meiri áherslu á að gera enn betur í þeim efnum.


Ég hvet ykkur til að taka þátt og leggja ykkar af mörkum.