Syðri-Skjaldarvík í Hörgársveit til leigu

Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar auglýsir til leigu húsnæði í Skjaldarvík í Hörgársveit. Um er að ræða Syðri-Skjaldarvík fastanúmer 215-8169 en þar hefur verið rekið gistiheimili undanfarin ár en var áður dvalarheimili fyrir aldraða.

Húsnæðið er í misgóðu ástandi og er samtals brúttó stærð um 1.867m². Einnig er möguleiki að taka á leigu einbýlishúsið í Ytri-Skjaldarvík sem er um 242,5m² og útihús sem er samtals um 560m². Lóð verður afmörkuð með húsunum eftir samkomulagi. Húsnæðið er afhent í því ástandi sem það er í dag og leigutaki hefur kynnt sér og þekkir og sættir sig við. Leigutaki aðlagar það að þeirri starfsemin sem hann hyggst nýta húsnæðið fyrir og greiða þær að fullu. Allar breytingar og endurbætur sem leigutaki gerir á hinu leigða eru háðar samþykki leigusala og eru eign leigusala að leigutíma loknum. Leigusali mun greiða fyrir viðhald utanhúss en leigutaki ber ábyrgð á og greiðir allt innhússviðhald.

Í húsnæðinu í Syðri-Skjaldarvík eru í dag um 35 herbergi. Herbergi eru misstór, frá rúmum 6m² upp í um 14 m², en flest um 9 – 11 m². Engar snyrtingar eru á herbergjum heldur sameiginlegar snyrtingar á göngum. Engin tæki/búnaður er í eldhúsi og húsnæðið stendur tómt.

Akureyrarbær rekur í dag Hlíðarskóla í þremur fasteignum á jörðinni og þarf að taka tillit til þess þegar ákveðið verður hvernig húsnæðið verður nýtt. Leigutaka ber í hvívetna að taka tillit til annarra leigjenda á svæðinu og starfsemi þeirra.

Áhugasamir skili inn greinargerð ásamt verðhugmynd þar sem m.a. kemur fram:

  • Hvaða húsnæði bjóðandi hefur áhuga á að leigja.
  • Hvaða starfsemi er fyrirhuguð að reka í húsnæðinu.
  • Leigufjárhæð á mánuði.
  • Leigutíma.
  • Annað sem bjóðandi vill láta koma fram.
  • Tryggingar fyrir leigugreiðslum.

Vettvangsskoðun verður miðvikudaginn 20. nóvember kl. 11:00. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið umsarekstur@akureyri.is fyrir kl. 09.00 sama dag.

Allar fyrirspurnir berist á netfangið umsarekstur@akureyri.is

Tilboðum ásamt greinargerð skal skila rafrænt til umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar á netfangið umsarekstur@akureyri.is eigi síðar en fimmtudaginn 5. desember 2024 kl. 11:00.

Leigusali áskilur sér er rétt til að kalla eftir frekari upplýsingum frá bjóðendum sem koma til greina svo sem um fjárhagslega getu og hæfi bjóðenda til framkvæmda. Gerður verður skriflegur leigusamningur við þann aðila sem valin verður af leigusala. Leigufjárhæð tekur breytingum mánaðarlega samkvæmt vísitölu neysluverðs, grunnur leiguverðs er vísitala neysluverðs á opnunardegi tilboðs. Leigutaki þarf að skila inn tryggingu sem nemur 6 mánaða leigu.

Leigutaki greiðir fyrir notkun vatns-, rafmagns- og hitunarkostnaðar og sorphirðu. Leigusali greiðir fyrir leigu á mælum. Annar rekstrarkostnaður svo sem þrif, snjómokstur, lóðarumhirða er einnig greiddur af leigutaka. Leigutaki skal einnig kaupa allar nauðsynlegar tryggingar vegna starfseminnar.

Leigusali greiðir lögbundin gjöld vegna hins leigða sem eru fasteignagjöld og brunatryggingar fasteigna og önnur gjöld innheimt af ríki og bæ vegna húsnæðisins, nema sorphirðu.

Horft verður til þess að starfsemin í húsinu falli vel að nærumhverfinu og gæði það lífi. Við val á leigutaka verður metið boðið leiguverð, að starfsemi lifi vel með þeirri starfsemi sem er á svæðinu, þekking, reynsla og fjárhagsgeta hans ásamt viðskiptahugmynd.

Akureyrarbær áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.