Tillögur að gjaldskrám fræðslusviðs fyrir árið 2023 lagðar fram til kynningar.
Áheyrnafulltrúar: Anna Lilja Sævarsdóttir fulltrúi leikskólastjórnenda, Daníel Sigurður Eðvaldsson fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Geir Kr. Aðalsteinsson fulltrúi ÍBA, Ingi Jóhann Friðjónsson fulltrúi leikskólakennara, Ólöf Inga Andrésdóttir fulltrúi grunnskólastjóra og Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.
Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista óskar að bóka:
Á tímum þar sem verðhækkanir í samfélaginu eru farnar að taka verulega í á heimilum ætti sveitarfélagið Akureyrarbær að standa með íbúum sínum. Þær gjaldskrárhækkanir sem fyrirhugaðar eru munu bitna einna helst á ungu fjölskyldufólki. Það að halda aftur af hækkaðri gjaldskrá leikskóla er einmitt skrefið sem bæjarfélagið ætti að taka í öllum gjaldskrám sem falla undir fræðslu- og lýðheilsusvið. Hækkun mataráskriftar og frístundar mun auka hættuna á því að fleiri börn í sveitarfélaginu fari svöng í gegnum daginn og foreldrar neiti sér um þjónustu frístundar. Við í Vinstrihreyfingunni grænt framboð munum engan veginn geta staðið með þessum tillögum.
Ísak Már Jóhannesson S-lista óskar að bóka:
Það er ótrúlegt miðað við umræður í aðdraganda nýafstaðinna kosninga að fulltrúar þeirra flokka sem lögðu fram kosningaloforð um gjaldfrjálsa leikskóla, að lækka leikskólagjöld í skrefum og að nauðsynlegt sé að leik- og grunnskólabörnum efnaminni foreldra séu tryggðar fríar skólamáltíðir skuli í fyrstu fjárhagsáætlun sinni leggja fram tillögu að gjaldskrá sem miðar almennt að 10% gjaldskrárhækkunum.
Leikskólagjöld á Akureyri eru með þeim hæstu á landinu og þó svo að lagt sé til að grunngjaldið standi í stað þá mun fæðiskostnaðurinn hækka um 10%, þannig að reikningur foreldra og forráðamanna vegna leikskólabarna hækkar.
Þá hækkar einnig verð í frístund og fæði í grunnskólum um 10% sem kemur harðast niður á efnaminni fjölskyldum.
Undirritaður telur nauðsynlegt að koma til móts við þarfir efnaminni einstaklinga og barnafjölskyldna við ákvarðanir meirihlutans um gjaldskrár.