Hafnarstræti - umsókn um útilistaverk

Málsnúmer 2022042576

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 381. fundur - 04.05.2022

Erindi dagsett 23. apríl 2022 þar sem Úlfar Gunnarsson sækir um stöðuleyfi fyrir útilistaverk í Hafnarstræti í sumar. Verkið er myndarammi, 2 x 2,8 m að stærð. Meðfylgjandi er skýringarmynd og greinargerð. Fyrir liggur að umhverfis- og mannvirkjasvið gerir ekki athugasemd við staðsetningu myndarammans.

Skipulagsráð samþykkir að veita tímabundið leyfi fyrir uppsetningu myndaramma til samræmis við erindi umsækjanda.

Skal uppsetning og frágangur á rammanum vera í samræmi við ákvæði sem sett eru fram í Samþykkt um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrar. Endanleg staðsetning skal unnin í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið.

Gildir leyfið frá 1. júní - 31. ágúst 2022.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

Skipulagsráð - 404. fundur - 14.06.2023

Erindi dagsett 6. júní 2023 þar sem Helga María Símonardóttir, Úlfar Gunnarsson og Þórhallur Jónsson f.h. Vina miðbæjarins sækja um áframhaldandi stöðuleyfi fyrir listaverkið Gula rammann í norðurenda Hafnarstrætis.

Upphaflega var stöðuleyfi veitt á fundi skipulagsráðs þann 4. maí 2022 með gildistíma frá 1. júní - 31. ágúst 2022.
Þórhallur Jónsson D-lista bar upp vanhæfi við afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hann af fundi undir umræðum og við afgreiðslu máls.


Skipulagsráð samþykkir að veita áframhaldandi stöðuleyfi fyrir umrætt mannvirki til eins árs með þeim skilmálum að því verði fundin ný staðsetning. Er skipulagsfulltrúa falið að koma með tillögu að nýrri staðsetningu í samráði við umsækjendur.