Framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, Halldór S. Guðmundsson, greindi frá tilnefningu á ÖA og Alfa verkefninu til evrópskra verðlauna í opinbera geiranum. ÖA er tilnefnt fyrir hönd Íslands af hálfu Evrópumiðstöðvar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Viðurkenningin er í flokki sem varðar "aðgerðir í tengslum við samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stuðla að frumkvöðlastarfsemi" og er á vegum Enterprise Europe Network (EEN) sem er samstarfsvettvangur 600 aðila í 60 löndum og er stærsta tækniyfirfærslu- og viðskiptanet sinnar tegundar (sjá www.een.is).
Með tilnefningunni telst ÖA vera "national winner" og getur af því tilefni flaggað árangrinum með "2017 EEPA National winner logo" á heimasíður og öðrum miðlum.
Niðurstaða tilnefningarinnar og samkeppninnar verður síðan kynnt á verðlaunaafhendingu í Tallinn þann 23. nóvember 2017.