Miðbæjarskipulag og Glerárgata

Málsnúmer 2017060107

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3417. fundur - 20.06.2017

Gunnar Gíslason D-lista óskaði eftir umræðu um málefni Glerárgötunnar og miðbæjarskipulagsins.
Bæjarfulltrúar D-listans Gunnar Gíslason, Eva Hrund Einarsdóttir og Baldvin Valdemarsson lögðu fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Bæjarstjórn samþykkir að skipulagsráði verði falið að taka gildandi Miðbæjarskipulag til endurskoðunar. Skipulaginu verði breytt þannig að hætt verði við þrengingu Glerárgötunnar frá gatnamótum Glerárgötu og Grænugötu að gatnamótum Glerárgötu og Kaupangsstrætis. Þá verði hætt við að hliðra Glerárgötu á kafla milli gatnamóta Glerárgötu og Kaupangsstrætis og gatnamóta Glerárgötu og Strandgötu. Í staðinn verði hugað að öðrum leiðum til að auka umferðaröryggi á svæðinu t.d. með því að skoða möguleika á því og kostnað við að byggja göngubrú eða gera undirgögn á gatnamótum Glerárgötu og Strandgötu. Þá má skoða möguleika á því að koma upp hraðamyndavélum í götunni til þess að halda umferðarhraða innan löglegra marka og auka þannig umferðaröryggi þeirra sem eru gangandi og hjólandi.

Tillagan var borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn atkvæðum Baldvins Valdemarssonar D-lista, Evu Hrundar Einarsdóttur D-lista og Gunnars Gíslasonar D-lista, Preben Jón Pétursson Æ-lista sat hjá við afgreiðslu.



Meirihluti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Meirihluti bæjarstjórnar getur ekki samþykkt framlagða bókun en bendir á að nú þegar er unnið að forgangsröðun í umferðaröryggismálum í samvinnu við Vegagerðina. Þá er jafnframt vinna á vegum skipulagsráðs í gangi um mögulegar útfærslur á miðbæjarskipulagi.

Tillagan var borin upp samþykkt með 6 atkvæðum.

Baldvin Valdemarsson D-lista, Eva Hrund Einarsdóttur D-lista, Gunnar Gíslasonar D-lista, Preben Jón Pétursson Æ-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista sátu hjá við afgreiðslu.