Logi Már Einarsson S-lista, Andrea Sigrún Hjálmsdóttir V-lista og Sigurður Guðmundsson A-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu að bókun:
Bæjarstjórn Akureyrar skorar á Alþingi að tryggja þjóðinni rétt til að segja álit sitt á framhaldi aðildarviðræðna Íslands að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Um leið er skorað á utanríkisráðherra að afturkalla þingsályktunartillögu sem gerir ráð fyrir því að Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka.
Þá tekur bæjarstjórn undir samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, frá 28. febrúar sl., þar sem stjórnin hvetur til þess að Alþingi tryggi sveitarfélögum í landinu ráðrúm til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna málsins.
Í greinargerð sem unnin var fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga um áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið kemur fram að þau yrðu umtalsverð. Útilokað er að segja nákvæmlega fyrir um áhrifin fyrr en fullbúinn samningur liggur fyrir í lok aðildarviðræðna.
Bæjarstjórn Akureyrar áréttar að í þessu stóra hagsmunamáli er eðlilegt að þjóðin fái formlega aðkomu að ákvörðun um framhald þess.
Ólafur Jónsson D-lista lagði fram frávísunartillögu og var hún felld með 3 atkvæðum gegn atkvæði Ólafs Jónssonar D-lista.
Tillaga Loga Más Einarssonar S-lista, Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur V-lista og Sigurðar Guðmundssonar A-lista var síðan borin upp og var hún samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Ólafur Jónsson D-lista,Geir Kristinn Aðalsteinsson L-lista, Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Oddur Helgi Halldórsson L-lista, Tryggvi Þór Gunnarsson L-lista, Hlín Bolladóttir L-lista og Inda Björk Gunnarsdóttir L-lista sátu hjá við afgreiðslu.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista óskaði bókað:
Ég tel rétt að styðja tillögu þessa í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp í kjölfar þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og þeirrar ólgu sem myndast hefur innan þings og utan. Mikilvægt er að málið komist í farveg sem sátt geti skapast um og horft sé til þess að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímbilsins þannig að skýr vilji þjóðar til áframhaldandi viðræðna liggi fyrir áður en gengið verður til þingkosninga á árinu 2017.
Geir Kristinn Aðalsteinsson L-lista lagði fram bókun svohljóðandi:
L-listinn, listi fólksins, hefur haft það að leiðarljósi að einbeita sér að verkefnum sem snúa beint að sveitarfélaginu. L-listinn telur umrætt mál vera málefni landstjórnarinnar og að stjórnsýsla sveitarfélaga eigi með orðum og gjörðum ekki að vera málsvari ákveðinna fylkinga innan sala Alþingis. Við fögnum borgaralegri þátttöku í stjórnmálaumræðu sem og ákvarðanatöku. L-listinn hefur alltaf haft það að leiðarljósi að vinna að samstöðu innan bæjarstjórnar Akureyrar og getur þess vegna aðeins beint þeim tilmælum til allra alþingismanna að finna málinu farveg sem yrði Alþingi og Íslendingum öllum til sóma.