Í framhaldi af munnlegri fyrirspurn Norðurorku um leyfi til að leggja metangaslögn frá gömlu sorphaugunum á Glerárdal að hreinsistöð sem staðsett yrði við vatnsgeymi Norðurorku við Súluveg, sendi skipulagssstjóri fyrirspurn til Skipulagsstofnunar þann 30. mars 2012 þar sem óskað var eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort merkja þurfi gaslögn frá urðunarstað á Glerárdal að hreinsistöðinni inná aðalskipulagsuppdrætti. Lögnin mun liggja um 12 m frá Súluveginum sunnanverðum og meðfram honum frá urðunarstað að vatnsgeymi þar sem hreinsistöðin mun standa.
Innkominn tölvupóstur dagsettur 17. apríl 2012 frá Skipulagsstofnun. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að ekki er talin þörf á að breyta aðalskipulagi vegna framkvæmda við lögnina þar sem svipaðar lagnir sem tilheyra dreifikerfum annarra veitukerfa eru ekki háðar aðalskipulagsákvæðum, en gera þarf deiliskipulag vegna staðsetningar hreinsi- og afgreiðslustöðvar.
Stofnunin bendir einnig á að framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi Akureyrarbæjar, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.