Skýrsla bæjarstjóra 7/10-20/10/2020

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 20. október 2020.

Síðustu vikurnar hafa litast mjög af viðbrögðum samfélagsins við þriðju bylgju Covid-19 og í hendur við það helst fjárhagsáætlunargerð sem er vegna ástandsins snúnari en nokkru sinni fyrr.

Allir fundir - fjölmennir og fámennir, langir jafnt sem stuttir - eru nú fjarfundir og hefur það fyrirkomulag sannað gildi sitt svo um munar. Fjarfundir skila því sem til er ætlast og spara bæði tíma og fjármuni.

Föstudagurinn 9. október var að mestu undirlagður af ársþingi SSNE.

Mánudaginn 12. október átti ég athyglisverðan fjarfund með Gunnlaugi Júlíussyni sem vinnur nú að meistaraverkefni um fjármálastjórnun sveitarfélaga.

Aðalfundur Norðurár bs. var haldinn þriðjudaginn 13. október og aðalfundur Moltu föstudaginn sextánda.

Fimmtudaginn 15. október var haldinn fyrsti fundur verkefnahóps um skilgreiningu á svæðisbundnu hlutverki Akureyrar sem skipaður var af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Á fundinum var meðal annars farið yfir almennt verklag nefndarinnar, afmörkun verkefnisins og tímaáætlun.

Við höfum átt fundi með Sjúkratryggingum um flutning öldrunarheimilanna yfir til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands; vinnan með bæjarstjórn og Strategíu vegna fjárhagsáætlunar heldur áfram og nú eru haldnir þrír stuttir fjarfundir í viku með sviðsstjórum um viðbrögð vegna Covid-19 og stöðuna á hverju sviði fyrir sig. Bæjarstjórn hefur verið boðið að sitja hluta þessara funda með okkur.

Einu sinni í mánuði hittast bæjar- og sveitarstjórar við Eyjafjörð á fjarfundi, drekka saman kaffi, ræða sameiginlega hagsmuni og það sem er á döfinni, en tilgangurinn er fyrst og fremst að kynnast betur og styrkja tengslin. Slíkur fundur var síðast haldinn föstudaginn 16. október.

Í gær var síðan haldinn fundur með fulltrúum byggðastofnunar, sveitarstjórnarráðuneytisins og bæjar- og sveitarstjórnarfólki á Norðurlandi eystra um endurskoðun byggðaáætlunar.